137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

vextir af Icesave.

[15:24]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég get ekki svarað fyrir hluti sem fram komu á fundi þingnefnda í morgun þar sem ég var ekki. Nú veit ég ekki hvernig menn hafa lagt þá hluti þar upp en það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það mun skipta miklu fyrir ríkið hversu hratt höfuðstóllinn og þar með vaxtakostnaðurinn lækka. Þeir borgast niður á sjö ára tímabilinu og ráða miklu um eftirstöðvar reikningsins. Verið er að vinna gögn sem fylgiskjöl með þessu frumvarpi eins og ég hef áður sagt í dag í einni af þremur fyrirspurnum um þetta mál. Seðlabankinn fer með þetta mál og mun fyrst og fremst bera ábyrgð á þeim gögnum sem fram koma með málinu og tengjast mati á greiðslubyrðinni og greiðslugetu ríkissjóðs. Svarið er að sjálfsögðu já, menn reikna með að ríkið ráði við þetta ásamt öðrum skuldum sínum því að vonandi mun okkur ganga vel á því sjö ára tímabili sem við höfum til að koma okkur í gegnum mestu erfiðleikana, að byggja okkur upp, greiða upp lán eða skila öðrum lánum sem við munum taka eða halda tímabundið, m.a. til að styrkja gjaldeyrisvaraforðann. Staðan ætti því að vera mun betri þegar að því kemur að takast á við þetta árið 2016.

Að öðru leyti vona ég að menn geti síðan rætt málið á grundvelli ítarlegra gagna þegar það kemur fyrir þingið.