137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

staða lífeyrissjóðanna.

[15:35]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér á landi geisar fjármála- og auðlindastríð sem háð er af fjármagnseigendum og lánardrottnum, sem ríkisstjórn Íslands styður svo dyggilega, á móti örþjóð. Stjórnvöld virðast ekki átta sig á hvað er í húfi fyrir íslenska þjóð. Hluti af þessu stríði er afneitun á stöðu lífeyrissjóðanna í landinu.

Hrein eign lífeyrissjóðanna var um áramótin 2007–2008 1.697 milljarðar kr. Eftir fall íslensku viðskiptabankanna í september á síðasta ári hefur reynst ómögulegt að fá uppgefið hver staða þeirra er. Að vísu er opinbera staðan gefin 1.644 milljarðar um síðustu áramót, en aðilar úr viðskiptalífinu hafa bent á að ekki sé mark takandi á þeim upplýsingum þar sem allar forsendur fyrir uppgjörum lífeyrissjóðanna eru ekki marktækar. Sem dæmi má nefna að úrvalsvísitala Kauphallarinnar féll um 94,5% við hrunið. Enginn veit nákvæmlega hvers virði gjaldmiðlaskiptasamningarnir sem gerðir voru glórulaust eru, ekki er nokkur leið að fá uppgefið hjá lífeyrissjóðunum á hvaða gengi þeir voru gerðir í upphafi. Þær röksemdir að samningarnir hafi verið gerðir til að verja eignir erlendis halda ekki vatni, og hvaða vit er í því að hafa allt upp í tæplega 40% af hreinni eign eins lífeyrissjóðs í slíkum samningi þar sem útstreymi og innstreymi sjóðsins er í íslenskum krónum? Auk þess neita lífeyrissjóðirnir að gefa upp skuldabréfastöðu í fyrirtækjum og ekki er nokkur leið að fá uppgefið hverjir eru útgefendur skuldabréfasafna lífeyrissjóðanna. Í ræðu Arnars Sigurmundssonar, formanns stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóðanna, á aðalfundi 14. maí 2009 kemur fram, með leyfi forseta:

„Eignarýrnun lífeyrissjóðanna á síðasta ári kemur skýrt fram í rúmlega 20% neikvæðri raunávöxtun þeirra á árinu og má ætla að það hlutfall gefi glögga mynd af stöðu sjóðanna í árslok 2008.“

Þetta eru nýjustu upplýsingarnar sem ég gat fundið um stöðu lífeyrissjóðanna fyrir umræðurnar hér. En hvað þýðir nákvæmlega þessi yfirlýsing? Hvað á maðurinn við? Er hann að meina að hægt sé að færa þá 1.644 milljarða sem talað er um að sjóðirnir hafi átt í árslok 2008 niður um 20%? Af hverju er ekki tekið mið af ónýtum pappírseignum lífeyrissjóðanna? Af hverju er ekki farið í afskriftir með einu pennastriki? Hverja er verið að vernda?

Ein krafa lífeyrissjóðanna er að gjaldmiðlaskiptasamningum sem lífeyrissjóðirnir skulda gömlu bönkunum verði skuldajafnað upp í töpuð bankaskuldabréf. Hvernig eiga skilanefndirnar að geta tekið þessa kröfu fram yfir aðrar í skuldaröðinni? Ekki getur almenningur skuldajafnað töpuðum séreignarsparnaði sínum á móti skuld við Íbúðalánasjóð svo dæmi sé tekið.

Nú hefur komið í ljós að lífeyrissjóðirnir voru í afar áhættusæknum fjárfestingum og hafa tapað gríðarlegum upphæðum. Til að fegra stöðuna fyrir sjóðfélögum er reynt að halda lífi í líkinu með margs konar brellum, eins og t.d. hótunum um að höfða mál á hendur gömlu bönkunum til að fá úr því skorið hvort rétturinn sé ekki lífeyrissjóðanna varðandi gjaldmiðlaskiptasamningana. Minni ég á að með neyðarlögunum var dómstólaleiðin felld niður á hendur gömlu bönkunum og því er þessi leið ekki fær. Rétt er að geta þess hér að rekstrarkostnaður lífeyrissjóðanna er óheyrilegur, tæpir 4 milljarðar á ári. (Gripið fram í: Nú?) Ávöxtun þeirra er léleg þrátt fyrir góðærið og hefur síðustu 10 ár jafnað sig í kringum 3% á meðan venjulegur verðtryggður innlánsreikningur í bönkunum hefur borið 6% vexti á sama tímabili.

Maður spyr sig: Hvað hafa lífeyrissjóðirnir verið að gera síðustu áratugina?

Virðulegi forseti. Nú spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn krafist þess að lífeyrissjóðir landsmanna verði þjóðnýttir eins og þeir gjarnan gera þegar þeir koma ríkjum til aðstoðar og einhver vísir að lífeyrissjóðakerfi eða sjóðum er til staðar í viðkomandi ríki?

Hvaða skoðun hefur hæstv. fjármálaráðherra á gegndarlausum gjaldmiðlaskiptasamningum lífeyrissjóðanna sem þeir sitja nú uppi með í gömlu bönkunum?

Nú hefur verið boðað að um miðjan júlí verði nýju bankarnir stofnaðir. Verður uppgjöri við lífeyrissjóðina lokið þá og hvaða skoðun hefur hæstv. fjármálaráðherra á því að lífeyrissjóðirnir komi að uppbyggingu Íslands fyrr en fullnaðaruppgjöri þeirra er lokið og staðan er klár?