137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

staða lífeyrissjóðanna.

[15:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir að vekja máls á stöðu lífeyrissjóðanna. Hrunið í haust hefur valdið því að eignir þeirra hafa rýrnað og þeir hafa margir þurft að grípa til þess ráðs að skerða lífeyri því að það er þannig með almennu lífeyrissjóðina öndvert við opinberu sjóðina að þeir hafa ekki bakhjarl og þurfa að grípa til þess að skerða lífeyri þar sem þeir geta illa hækkað iðgjaldið vegna bágrar stöðu fyrirtækja og launþega. Þessi skerðing lífeyris kemur náttúrlega mjög illa við lífeyrisþega í almennu sjóðunum. Þarna er verið að tala um 6% og 10% skerðingu og það getur munað mjög mikið um það hjá einstaklingi sem er ekki með mikið til ráðstöfunar.

Það kom í ljós í hruninu að bankarnir voru mjög samtengdir fjármálafyrirtækjum og fyrirtækjum í atvinnurekstri og komu inn í það sem menn hafa nefnt krosseignarhald og dómínó-áhrif. Það vekur upp spurningar um það af hverju sjóðfélaginn, hinn almenni sjóðfélagi komi ekki betur og meira að kjöri stjórnar lífeyrissjóðanna. Þetta hef ég bent á mörg undanfarin ár. Ég held að það sé mjög brýnt núna að auka vægi og þunga þess að sjóðfélagar geti sjálfir kosið það fólk sem fer með fjöregg þeirra, eignina í lífeyrissjóðunum og ráðstöfun hennar.

Varðandi gjaldmiðlasamninga lífeyrissjóðanna þá voru þeir á margan hátt eðlilegir því að lífeyrissjóðirnir eiga mikið af eignum sem eru í erlendri mynt og þeir vildu minnka þá áhættu að sú mynt mundi lækka í verði eða hækka mikið. Nú hefur það gerst að eignin hefur hækkað mikið en þá myndast tap á þessum gjaldmiðlasamningum sem vegur á móti tapinu þannig að þetta er í sjálfu sér eðlileg ástæða.

En ég vil endilega hvetja til þess að menn skoði það að auka lýðræði í stjórnum lífeyrissjóðanna.