137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

staða lífeyrissjóðanna.

[15:50]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Bhr):

Frú forseti. Lífeyrissjóðakerfið er að mörgu leyti stolt hinna vinnandi stétta á Íslandi, þ.e. sú staðreynd að sátt skuli hafa myndast um það að hrinda í framkvæmd söfnunarsjóðum sem hafa það hlutverk að tryggja ákveðin lífeyrisréttindi þegar líður að ævikveldinu. Þetta er alveg dásamlegt. Við erum stolt af lífeyrissjóðakerfinu en ég hef engan mann hitt sem er stoltur af því hvernig þetta kerfi virkar. Eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal kom að hérna áðan er stjórn þeirra ekki með lýðræðislegum hætti. Starfsemi þeirra er ógagnsæ og það er á allra vitorði að fjárfestingar þeirra hafa verið, ja ég vil segja á gráu svæði viðskipta sem stjórnast ekki eingöngu af viðskiptahagsmunum heldur af góðra vina hagsmunum. Því til stuðnings vil ég nefna að engum mun vera ókunnugt um hvernig forustumenn sumra lífeyrissjóða hafa hagað sér í sambandi við að snapa lúxusferðir, laxveiðiferðir eða fleiri þægindi út úr verðandi (Forseti hringir.) viðskiptamönnum lífeyrissjóðanna. Ég vil vekja athygli á því að það er þörf á að fram fari opinber rannsókn (Forseti hringir.) á stjórn lífeyrissjóða sem nú hafa tapað allt að helmingi af ráðstöfunarfé sínu.