137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

staða lífeyrissjóðanna.

[15:52]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Síðasta vonarglæta íslensks efnahagslífs er íslenska lífeyrissjóðakerfið. Þangað beinast augu allra, ríkisins, sveitarfélaganna og aðila vinnumarkaðarins. Ríkið vonast til að lífeyrissjóðirnir standi að stofnun endurreisnarsjóðs Íslands, sveitarfélögin vonast eftir að lífeyrissjóðirnir láni þeim fyrir ýmiss konar framkvæmdum og atvinnulífið vonast til að lífeyrissjóðirnir bjargi einhverju varðandi jöklabréfin, taki þátt í fjármögnun verkefna á borð við álver í Helguvík, hátæknisjúkrahús, ný Hvalfjarðargöng og sólarkísilverksmiðju til að nefna nokkrar hugmyndir.

Á sama tíma liggur fyrir að staða lífeyrissjóðanna er ekki góð. Bráðabirgðatölur lífeyrissjóðanna gáfu til kynna neikvæða ávöxtun upp á 21,5% að teknu tilliti til þróunar verðlags. Morgunblaðið hefur bent á að enn eigi eftir að afskrifa meira af verðbréfum banka og fyrirtækja í eignasöfnum sjóðanna en þegar hefur verið gert. Þannig fullyrðir blaðið að varlega megi áætla að neikvæð raunávöxtun sjóðanna á síðasta ári sé nær 33% en 21,5%.

Hlutverk lífeyrissjóðanna er að tryggja sjóðfélögum lágmarkslífeyri. Sé horft til síðustu tíu ára er ljóst að fjárfestingarstefna lífeyrissjóðanna stendur ekki undir væntingum um lágmarksávöxtun 3,5%. Allt of lítil áhersla var á kaup á verðtryggðum ríkisbréfum og hlutabréf hafa orðið æ stærri hluti eignasafna. Fjárfestingarstefna margra sjóða hefur verið allt of áhættusækin til að uppfylla hlutverk þeirra um að tryggja lágmarkslífeyri.

Nú er hart lagt að lífeyrissjóðum að leggja fjármuni í áhættusamari fjárfestingar. Lán til sveitarfélaga, fjárfesting í nýsköpunarverkefnum, uppbygging sólarkísilverksmiðju og jafnvel hátæknisjúkrahús geta verið áhættusamar fjárfestingar, sérstaklega í ljósi síversnandi skuldastöðu íslenska ríkisins og jafnvel versnandi lánshæfismats. Því skiptir miklu máli að við veltum fyrir okkur á hinu háa Alþingi hvað það er sem við viljum með lífeyrissjóðina okkar, hver er hinn raunverulegi tilgangur þeirra? Er þeim ætlað að standa undir framfærslu lífeyrisþega eða eiga þeir áfram að vera vogunarsjóðir í vörslu manna með milljónir á mánuði en enga ábyrgð?