137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

staða lífeyrissjóðanna.

[15:59]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Frú forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og ég þakka svörin, sérstaklega frá hæstv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Eitt vakti athygli mína að hæstv. fjármálaráðherra er ekki að hnýta saman uppgjör og stofnun bankanna og uppgjör lífeyrissjóðanna. Það segir mér að þá á líklega að skilja bæði gjaldmiðlaskiptasamningana og bankaskuldabréfin eftir í gömlu bönkunum, því að við uppgjör bankanna í júlí á að færa það sem nýtilegt er yfir í nýju bankana og stofna þá og skilja annað eftir í gömlu bönkunum. Uppgjör lífeyrissjóðanna að þessu leyti hlýtur því að vera óumflýjanlegt á sama tíma.

Einnig vil ég benda á að það er æskilegt stjórnskipunarlega séð að hæstv. fjármálaráðherra sé fjármálaráðherra allra landsmanna en ekki bara fjármagnseigenda því að á svörum hans áðan mátti greina að hæstv. fjármálaráðherra er í mjög góðu sambandi við þá aðila sem að lífeyrissjóðunum standa og vitnaði þar gjarnan í ársskýrslurnar, einhliða upplýsingar frá lífeyrissjóðunum, en það er hans mál.

Mig langar aðeins til að benda hæstv. heilbrigðisráðherra á grein, úttekt á lífeyrissjóðunum frá 28. maí 2009 í Morgunblaðinu. Þar kemur fram að í ársskýrslu Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins fyrir árið 2008, sem miðast við úttekt og stöðu lífeyrissjóðsins í lok 2008, var niðurstaðan sú að tekist hafi að fresta því að óuppgerður hlutur B-deildar sjóðsins kæmist í þrot árið 2021, en að auki kemur fram í ársskýrslunni að erfiðleikar á fjármálamörkuðum á síðasta ári geri það að verkum að sá tímapunktur þegar sjóðurinn muni tæmast hafi færst nær í tíma.

Eins og ég sagði í upphafi fyrri ræðu minnar virðist vera mikil neikvæðni eða réttara sagt mikil afneitun í gangi varðandi stöðu lífeyrissjóðanna bæði á almenna markaðnum og hjá hinu opinbera. Mér líst ekki á stöðuna og (Forseti hringir.) ég hvet fjármálaráðherra til þess að áður en lífeyrissjóðirnir (Forseti hringir.) fara að fjárfesta innan lands á ný í nýjum verkefnum verði þeir gerðir upp til (Forseti hringir.) að mæta kröfum sjóðfélaga.