137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

lokafjárlög 2007.

57. mál
[16:27]
Horfa

Frsm. fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er mikilvægt að við höfum aðgang að rauntímaupplýsingum úr bókhaldi ríkisins, á fjárreiðunum, og það er einmitt það sem baráttan snýst um. Þar hafa menn líka krafist þess í auknum mæli eða réttara sagt fylgja því betur eftir að menn búi til rekstraráætlanir og dreifingu á rekstrarútgjöldum. Það ber stofnunum að gera í dag. En það kemur í ljós í skýrslu Ríkisendurskoðunar bæði fyrir síðasta ár og árin á undan að ákveðinn fjöldi stofnana skilar þessum upplýsingum ekki fyrr en seinna og það gerir allt eftirlit og alla eftirfylgni með fjárlögum miklu erfiðari.

Varðandi þetta með ábyrgðina er einmitt fyrst og fremst að þessu verði fylgt betur eftir og, eins og kom nákvæmlega fram í þessu nefndaráliti, ef frávik eru frá þessu þá verða menn að átta sig á því hvort það sé vegna þess að þetta sé vanáætlað, hvort það sé vegna þess að menn séu ekki að sinna skyldu sinni eða hreinlega hvort ofáætlað sé á liðinn. Þessar úttektir þurfa auðvitað að eiga sér stað þar sem menn eru að lenda í vandræðum ár eftir ár, en á það hefur skort.

Varðandi það að axla ábyrgðina er þá fyrst og fremst það að fylgja þessu eftir jafn vel, eins og eru dæmi um, með því að menn setji eftirlitsaðila á viðkomandi stofnanir og fara svo yfir fjármálin með skipulegum hætti. Dugi það ekki þá eru skýr ákvæði í lögum um það hvernig eigi að fylgja málum eftir. Það verður að vísu algert neyðarbrauð ef þarf að fara að reka fólk eða áminna það vegna fjárlaga. En það gæti komið til þess ef um ítrekað vandamál er að ræða og tekst ekki að koma skikk á málin og ná utan um fjárlagarammann.

Varðandi útgjaldaaukninguna þá er ég ekki með neina sérstaka greiningu á því. Við ræddum um þetta núna nýlega varðandi það hvar útgjaldaaukning hefði verið. Það er ljóst að á þessum tíma, árið 2007, bættu menn verulega í varðandi félags- og tryggingamálin, almannatryggingakerfið, settu inn allt að — fleiri milljarðar raunar í aukningu þar, sumt af því sem við erum að draga til baka illu heilli núna vegna þess að við ráðum ekki við það í þessu umhverfi sem nú er komið. (Forseti hringir.) Það er ein af skýringunum. En auðvitað eru þær mun fleiri, til dæmis framkvæmdir eins og hefur komið fram áður í umræðunni.