137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

lokafjárlög 2007.

57. mál
[16:29]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Rétt er það. Við hv. formaður fjárlaganefndar ræddum aðeins hér fyrir helgina útgjaldaaukningu, ég mundi segja nokkuð óhóflega útgjaldaaukningu ríkisins á undanförnum tveimur árum. Mér sýnist að útgjaldaaukning ráðuneytanna sé að meðaltali um 28% miðað við fjárlög 2009 og reikning 2007. Það er náttúrlega verulega mikið. Það hlýtur að teljast mjög mikið sérstaklega í ljósi þess að mjög margir hagfræðingar á þessum tíma og aðrir aðilar mæltust eindregið til þess að dregið yrði úr umsvifum ríkisrekstrar á þessum tíma í hápunkti góðærisins og það yrði sýnt aðhald í ríkisrekstri.

Það er alveg rétt sem kemur fram í máli hv. formanns fjárlaganefndar að verulega var bætt í almannatryggingakerfið og bætt var verulega í samgönguverkefni. En það er hins vegar athyglisvert að þetta eru þeir málaflokkar sem menn eru að skera niður í núna. Maður hlýtur því að spyrja hv. formann fjárlaganefndar hvort menn hafi ekki farið fram þarna af talsverðu fyrirhyggjuleysi í ljósi þess að nú eru þeir að skera niður það sem þeir bættu í fyrir einungis tveimur árum.

Einnig hlýt ég að spyrja í ljósi þess að nú fer fram þessi vinna, að það er verið að skera niður í ríkisrekstri, hvort ekki þurfi að kanna skipulega í hverju útgjaldaaukningin á síðustu tveimur árum fólst. Fyrst að hv. formaður fjárlaganefndar er ekki alveg viss um það hlýtur það að fela í sér enn skýrari ástæðu fyrir því að farið verði í að kanna það kerfisbundið.