137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

lokafjárlög 2007.

57. mál
[16:31]
Horfa

Frsm. fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Rétt er að rifja upp að þegar við komum að fjárlagagerð og vinnu við fjárlög árið 2007 og síðan 2008 þótti okkur nauðsynlegt að rétta upp það ójafnræði sem var í landinu og ójafnrétti þar sem setið höfðu eftir heilu stéttirnar einmitt á góðæristímanum. Miðað við þáverandi stöðu, en eins og hér hefur komið fram er um að ræða tugmilljarða rekstrarafgang á árinu 2007 þrátt fyrir aukningar, þótti rétt að breyta þessari skiptingu. Þess vegna komu menn með verulegar hækkanir í almannatryggingakerfinu.

Sömuleiðis má segja samt um sama tíma, og það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni, að full ástæða er til að fylgjast með því hvar aukningar urðu og það hefur verið skoðað þó ég sé ekki með það á takteinum hér í smáatriðum og það á auðvitað eftir að skoða það miklu betur hvaða verkefni ríkið sé að vinna sem er í raunveruleikanum ekki í þess verkahring en sem menn tóku að sér á meðan þeir gátu leyft sér það vegna tekjuaukningar. Þá leyfðu menn sér að hafa ekki meiri aga á ríkisfjármálunum. Þetta hafði viðgengist þarna árin á undan, 2006, 2007 að hluta og svo áfram 2008 þó að þar væri stigið töluvert á bremsurnar.

Þessar viðvaranir sem hv. þingmaður nefnir komu fram við fjárlagagerðina 2007/2008. Það er alveg hárrétt og kannski hefðum við, þegar litið er til baka og fyrst að við tókum allar þessar röngu ákvarðanir á þenslutímanum, betur safnað í sjóði á þessum tíma umfram það sem við gerðum og átt það til framkvæmda og annarra hluta í dag. Það er bara akkúrat það sem gerðist að við beittum, eins og ég hef áður sagt, öllum þeim úrræðum sem okkur vantar núna — við beittum þeim á sama tíma og Kárahnjúkarnir voru, þ.e. íbúðalánin, við lækkuðum skatta, gerðum raunar allt það sem við ættum að gera í dag en höfum því miður ekki fjármagn til að sinna.

Ég vona að menn ljúki þessari afgreiðslu og lokafjárlögum og að í framhaldinu (Forseti hringir.) verði fjárlagavinnan bætt og gerð skilvirkari og aginn aukinn (Forseti hringir.) í fjárlagagerð og framkvæmd fjárlaga.