137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[16:40]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er á ákveðinn hátt kafkaísk lífsreynsla að lesa þetta frumvarp en ég get varla ímyndað mér meira bákn en Bankasýslu ríkisins. Slík stofnun mundi sóma sér vel sem sögusvið í sögu eftir Franz Kafka t.d. Þetta er bara hugleiðing, í þessu felst ekki spurning.

Ég velti hins vegar fyrir mér í þessu samhengi af hverju þetta frumvarp með sömu annmarka og frumvarp um hlutafélag eða eignaumsýslufélag rekstrarhæfra fyrirtækja — en þeir annmarkar eru í stuttu máli þeir að fjármálaráðherra einn skipar í stjórn þessarar stofnunar. Hér eiga þrír aðilar að sitja í stjórn Bankasýslu ríkisins og það er hæstv. fjármálaráðherra sem skipar þessa stjórnarmenn. Maður hlýtur að gera sömu athugasemdir við þetta frumvarp vegna þess að ekki er þetta síður mikilvæg stofnun eða sýslufélag eða hvað þetta heitir en hlutafélagið sem á að fara með endurskipulagningu rekstrarhæfra fyrirtækja.

Telur hæstv. fjármálaráðherra ekki ástæðu til þess að tilnefning í þessa stjórn í ljósi þess hversu mikilvæg hún er verði faglegri, að öðrum aðilum verði gert kleift að koma að því að tilnefna í þessa stjórn eða að leitað verði eftir tilnefningum, jafnvel að Alþingi samþykki þessa stjórn í ljósi þess hversu mikilvæg hún er? Með öðrum orðum er ekki hæstv. fjármálaráðherra farinn að hafa kannski nokkrar áhyggjur af því hvað hann er kominn með í raun og veru mikil völd í ljósi þess að allt fjármálakerfið er komið undir ríkið og mjög mikilvæg og mörg fyrirtæki eru komin í ríkiseigu? Hér er verið að skipa annars vegar stjórn sem á að fara með (Forseti hringir.) endurskipulagningu fyrirtækjanna og hins vegar endurskipulagningu bankanna (Forseti hringir.) og það er hæstv. fjármálaráðherra sem skipar í allar stjórnir.