137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[16:44]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Nei, hæstv. fjármálaráðherra, ég tel ástandið ekkert vera sérstaklega gott eins og það er og ég tel fulla ástæðu til að reyna að gera það á einhvern hátt betra og reyna að koma þessu ferli öllu saman, endurskipulagningu bankanna og fyrirtækjanna, í faglegt ferli. En ég bendi á það að hér verið að skipa mjög mikilvæga stjórn sem fer með endurskipulagningu á næstum öllu fjármálakerfi á Íslandi og það kann að vera, og það kemur fram í athugasemdum við frumvarpið, að markmiðið sé að koma því starfi öllu saman út úr stjórnmálunum en samt stendur eftir að ég geri athugasemd við það að það er einungis hæstv. fjármálaráðherra sem hefur skipunarvald í þessa stjórn. Það er við þann punkt í frumvarpinu sem ég geri athugasemdir.

Mér finnst það fela í sér afskaplega mikil völd og þetta er sams konar umræða og fór fram í 1. umr. um eignaumsýslufélagið fyrir þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki sem þá hét og umræðan er þessi: Hvað ef fjármálaráðherra væri ekki sá sem hann er í dag heldur einhver annar, einhver sem við treystum jafnvel verr? Þetta getur vel komið upp, við erum að tala um fimm ára tímabil, við erum að tala um það að setja lög í landinu sem fela fjármálaráðherra, hver sem hann er — og því segi ég ekki hæstvirtum, ég er bara að tala um fjármálaráðherra sem fyrirbrigði — að hver sem hann er, hann fær þessi völd. Hann getur skipað sína menn í þessar stjórnir algjörlega án athugasemda og hefur þar með með höndum endurskipulagningu bæði fyrirtækja á Íslandi og bankastarfseminnar. Mér finnst satt að segja að það séu einum of mikil völd þó að markmiðið sé að minnka þau og spyr hvort ráðherrann sé þá ekki opinn fyrir því að í meðförum þingsins, (Forseti hringir.) sem hann hlýtur þá að vera reyndar ef meiri hlutinn ræður, að þessu verði breytt, að þetta verði skipað faglega og að þingið komi jafnvel meira að þessu.