137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[17:13]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur að því hvað hún hafi átt við þegar hún talaði um eignarhaldsfélag annars vegar og að draga úr ábyrgð ríkisins — ef hún vildi útskýra nánar hvað hún á við þegar hún talar um að draga úr ábyrgð ríkisins því að hér erum við að tala um fyrirtæki og banka og fjármálastofnanir sem ríkið á. Hvernig getur þá utanumhald um það með einhverjum hætti dregið úr ábyrgð ríkisins, ef ég hef skilið hv. þingmann rétt?

Í öðru lagi, frú forseti, langar mig að spyrja hv. þingmann hvernig henni lítist á þá hugmynd sem fram kom í máli hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar að bæði Byggðastofnun og Íbúðalánasjóður yrðu færð undir þessa svokölluðu Bankasýslu ríkisins eins og frumvarp til laga segir til um.