137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[17:14]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir spurði mig hvað ég ætti við með því að draga ætti úr ábyrgð ríkisins. Við hæstv. fjármálaráðherra erum fullkomlega sammála um að við teljum að ríkið eigi að bera fulla ábyrgð á ríkisbönkunum en það varðar fjárhagslega ábyrgð, það er að fjárhagsleg ábyrgð ríkisins sé takmörkuð ef eignarhaldið er í opinberu hlutafélagi. En þetta eru sjónarmið sem þarf að skoða, kanna og velta upp og að lokum er hægt að taka ákvörðun um það hvort um opinbert hlutafélag verði að ræða eða stofnun.

Varðandi tillögur hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar, um það að Íbúðalánasjóður og Byggðastofnun heyri undir þetta félag, þá þekki ég lítið til starfsemi Byggðastofnunar beinlínis en ég tel að þar sem um tímabundið félag er að ræða væri óeðlilegt að setja slíka sjóði undir þetta félag nema ríkið tæki ákvörðun um að þeir ættu að leggjast af. Í mínum huga er það svo að bankarnir eru tímabundið í eigu ríkisins, a.m.k. allt fjármálakerfið meira eða minna, og þar af leiðandi tel ég þetta vera tvo ólíka hluti.