137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[17:19]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Hér er til umræðu mjög mikilvægt mál, frumvarp til laga um Bankasýslu ríkisins. Auðvitað er sárgrætilegt að slíkt frumvarp þurfi að líta dagsins ljós. Það er hlutgerving þess að bankarnir allir stóru eru komnir í eigu ríkisins og við því þarf að bregðast og það er rétt sem fram hefur komið hjá hæstv. fjármálaráðherra að sú staða var uppi þegar hæstv. ráðherra tók við sínu embætti í febrúar og því er eðlilegt að ráðherrann komi fram með einhvers konar hugmyndir um það hvernig skuli á halda þegar kemur að eigandahlutverki ríkisins.

Ég tek undir þá gagnrýni sem fram hefur komið meðal annars hjá hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni að ástæða sé til þess að gera athugasemdir við skipan stjórnar þessa fyrirbæris, þessarar Bankasýslu. Ég held að ef þetta gangi eftir sem hér er lagt upp með ásamt þeim fyrirætlunum sem eru um eignaumsýslufélagið og hvernig stjórn þess verði skipuð þá muni hæstv. fjármálaráðherra verða — þ.e. þá mun ekki hafa verið voldugri maður á Íslandi frá dögum Jörundar hundadagakonungs þegar saman verður lagt það vald sem fylgir þessu frumvarpi og eignaumsýslufélaginu. Það er rétt sem fram hefur komið og kemur fram í greinargerð að í nútímahagkerfum skipta fjármálafyrirtækin auðvitað mestu máli og því er gríðarlega mikilvægt hvernig menn halda utan um slík fyrirtæki og þar leikur eigandahlutverkið stórt hlutverk.

Mig langar að nefna rétt aðeins hér áður en lengra er haldið, af því að hér nefndi hæstv. fjármálaráðherra hin svokölluðu ohf.-félög og þá tilraun sem gerð var með stofnun slíkra félaga, að sá sem hér stendur hefur lengi verið þeirrar skoðunar að það sé flókið, erfitt og jafnvel ógerlegt að reyna að koma á því fyrirkomulagi í opinberum rekstri að það eigi að jafngilda eða vera eins og fyrirkomulag rekstrar einkafyrirtækja á markaði. Ég held að ógerningur sé að búa slíkt til og ég er þeirrar skoðunar að þar sem ríkið hefur eignarhald sé rétt að slíku eignarhaldi fylgi þá hin pólitíska ábyrgð, að menn eigi ekki að reyna að búa til veruleika sem á sér enga stoð, reyna að blekkja sig með því að ekki liggi pólitísk ábyrgð þarna að baki.

Ég virði þann vilja sem fram hefur komið hjá hæstv. fjármálaráðherra sem felst í frumvarpinu að reyna að búa til einhvers konar bil á milli stjórnmálanna annars vegar og bankakerfisins hins vegar. Ég er efins um eða velti því upp hvort það sé algjör og fullkomin nauðsyn í ljósi þeirra atburða sem hér hafa orðið að fjármálaráðherra verði að halda á þessum hlut. Ástæðan fyrir því að ég nefni það er jú, að að öllu jöfnu er eðlilegt að fjármálaráðherra fari með hlut ríkisins í fyrirtækjum. En auðvitað leggur enginn upp með að sú staða geti orðið að allt bankakerfið eins og hendi væri veifað færðist til hins opinbera og þar með til fjármálaráðherra. Ég velti því upp hvort við ættum ekki að skoða það nokkuð vel hvort skynsamlegt væri að í stað þeirrar nálgunar sem felst í 2. gr. frumvarpsins um skipan stjórnar, þ.e. hvort við ættum ekki að skoða það að kjósa á Alþingi valnefnd, fimm manna eða sjö manna valnefnd, og fela þeirri nefnd síðan að velja bankaráðið eða stjórn Bankasýslunnar öllu heldur. Þar með væri ekki til staðar þessi mikla nánd hæstv. fjármálaráðherrans og um leið fælist skýrari pólitísk ábyrgð í því að Alþingi sjálft kæmi að málinu. Ég held að rétt væri að skoða þetta, frú forseti.

Ég vil líka nefna ákvæði síðustu málsgreinar 2. gr., sem hljómar svona, með leyfi forseta:

„Ákveði fjármálaráðherra í undantekningartilvikum að beina tilmælum til stjórnar stofnunarinnar um tiltekin mál getur stjórnin tjáð ráðherra afstöðu sína til þeirra áður en við þeim er orðið.“

Hugsunin er að slíkt fari fram með gegnsæjum og opnum hætti, skriflegum og þess háttar. Þó að ég treysti hæstv. fjármálaráðherra ágætlega þá kunna þeir ráðherrar að koma sem munu kannski nálgast þetta hlutverk öðruvísi og lyfta jafnvel upp síma og kalla menn á fund og svo framvegis þannig að það væri erfitt að rekja slík samskipti, þ.e. þau yrðu bara ekkert skrifleg. Enn og aftur tel ég þess vegna heppilegra að búa til meiri fjarlægð en þá sem myndast með aðkomu hæstv. ráðherra eins og lagt er upp með í 2. gr. Það væri hægt að gera það, eins og ég segi, með því að Alþingi skipi sérstaka tilskipunarnefnd.

Í sjálfu sér hef ég engar stórar athugasemdir fram að færa hvað varðar einstök efnisatriði frumvarpsins umfram það sem kom fram í máli hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar. Þó vil ég undirstrika að það skiptir miklu máli að þessu eigandahlutverki sé vel sinnt. Mikilvægi málsins felst í því að því fyrr sem bankakerfið okkar fer að virka því fyrr komumst við aftur af stað með efnahagsstarfsemina. Ég vil þó sérstaklega fagna því að í þessu frumvarpi, meðal annars í j-lið 4. gr., kemur fram sú stefnumótun af hálfu ríkisstjórnarinnar að til standi að selja þessa eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, að losa ríkið síðan aftur úr þessum rekstri. Það skiptir máli að slík stefnumörkun líti dagsins ljós. Því fyrr sem hún gengur fram því betra.