137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[17:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um Bankasýslu ríkisins. Ég hef það á móti þessu frumvarpi að þar er lagt til að sett verði á laggirnar ný stofnun en það er nú bara af því að ég hef yfirleitt á móti því að settar séu á laggirnar nýjar stofnanir vegna þess að ég geld alltaf varhuga við útþenslu ríkisins sem hefur reyndar verið allt of mikil undanfarna áratugi og við erum að einhverju leyti að súpa seyðið af núna.

Að öðru leyti finnst mér þetta frumvarp ágætt með hliðsjón af þeirri stöðu sem við erum í. Staðreyndin er jú sú, eins og ég hef nefnt nokkrum sinnum, að bankarnir eru í eigu ríkisins og öll þau fyrirtæki sem eru háð bönkunum í gegnum miklar lánveitingar sem þau ráða ekki við eru líka að komast undir eignarhald ríkisins. Þetta er sú staða sem við þurfum að glíma við og mér finnst þetta frumvarp til bóta sem og það frumvarp sem hér hefur verið nefnt um fyrirtæki sem geta staðist rekstrarlega og efnahags- og skattanefnd hefur eytt mjög miklu púðri í og hét áður frumvarp um hlutafélag um þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki, þ.e. að þetta sé jákvæð viðleitni til þess að taka á þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir þar sem ríkið er jú eigandi að stórum hluta atvinnulífsins og þar af leiðandi er atvinnulífið meira og minna gegnsýrt af pólitík sem afleiðing. Mér sýnist að menn séu hérna að reyna að mynda bil á milli stjórnmálanna og viðskiptalífsins til þess að búa til traust og það er náttúrlega mjög mikilvægt akkúrat um þessar mundir að menn treysti því sem er að gerast og það er kannski númer eitt, tvö og þrjú sem við þurfum að byggja upp, þ.e. traust. Þetta frumvarp gæti hugsanlega verið skref í þá átt.

Hér hefur nokkuð verið rætt um Íbúðalánasjóð. Ég tel nú að Íbúðalánasjóður sé fjármálafyrirtæki og það efast enginn um að ríkið eigi hann og þar með finnst mér að hann falli undir þetta fyrirbæri, þessa stofnun Bankasýslu ríkisins þannig að menn þurfa ekkert að ræða það neitt sérstaklega mikið.

Varðandi það hvort þetta er stofnun eða ohf. þá er þar reginmunur á. Stofnun er alfarið á ábyrgð ríkissjóðs. Allar skuldbindingar sem hún tekst á hendur eru um leið skuldbindingar ríkissjóðs en ábyrgð ohf. sem hlutafélags er eðli málsins samkvæmt takmörkuð við hlutaféð. Það hef ég sagt áður en menn virðast eitthvað hafa misskilið það því að ég veit ekki betur en einhver hafi sagt að ég héldi hinu öndverða fram. En að sjálfsögðu er það eðli hlutafélaga að takmarka ábyrgð eigenda við það hlutafé sem þeir hafa lagt fram. Það er einmitt snilldin við það form.

Það eru ýmsir góðir taktar þarna eins og í 4. gr. þar sem fjallað er um að upplýsa eigi um samninga eftir tólf mánuði. Þetta er mjög jákvætt og hefur gefið góða raun í Seðlabankanum, þ.e. að peningastefnunefndin skuli birta eftir tvær vikur fundargerð sína og mætti kannski skoða að gera slíkt víðar. Svo er í 7. gr., þó að menn hafi sagt að þetta sé lýðskrum, þá er það sennilega vegna þess að það er sagt þarna „almenningur“, en að sjálfsögðu erum við ekkert að leita eftir almenningi. Menn eru að leita eftir fólki með sérfræðiþekkingu vegna þess að það á að senda inn ferilskrár og í því felst það að menn ætla sér að þarna verði fólk sem hafi eitthvað fram að bjóða. Það sem kannski villir um þarna er að það skuli heita þarna almenningur. En ég veit ekki hvort það er eitthvert betra orð til um það. En að sjálfsögðu eru menn ekki að leita að einhverjum manni sem kann rétt að lesa til þess að fara (Gripið fram í.) í bankaráð. (Gripið fram í.) Lysthafendur já, eða þeir sem hafa burði til að fara í bankaráð og stjórnir fyrirtækja. Ég lít ekki á það sem eitthvað sem allur landslýður geti farið í og er ég þó ekki með fordóma gagnvart fólki almennt.

Svo varðandi fimm árin, þar mundi ég gjarnan vilja að menn settu bara hreinlega tímamark eins og í frumvarpinu um þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki sem nú heitir frumvarp um rekstrarhæf fyrirtæki. Þar var sett tímamarkið 31. desember 2015 og ég held að menn ættu að gera það hérna líka. Það breytir í sjálfu sér eðli málsins ekki miklu en þó því að þá er komin ákveðin dagsetning þar sem fyrirbærið er búið og lögin hætta að virka.

Það eina sem ég hef enn við þetta frumvarp að athuga er náttúrlega stjórnin. Nú er það þannig að stjórnir bankanna eru skipaðar af fjármálaráðherra. Menn hafa haft svona ákveðna tilnefningu — það var alla vega gert síðast — hreinar pólitískar tilnefningar flokkanna í stjórnirnar. Það fannst mér ekkert voðalega sniðugt. Ég held að menn ættu að reyna að skoða þá hugmynd sem framsóknarmenn hafa verið að reifa varðandi þetta frumvarp sem enn er til umræðu, 3. umr., og á milli 2. og 3. umr. í efnahags- og skattanefnd, þ.e. að koma með einhvers konar valnefnd, faglega valnefnd, jafnvel blandaða faglegu, með háskólasamfélagið og hugsanlega aðila vinnumarkaðarins, þeirra aðila sem koma að þessu. Þeir leggi mat á umsækjendur og síðan er það fjármálaráðherra sem skipar og ef hann gengur þvert á matið verður hann bara að svara fyrir það. Ég held að það sé kannski nokkuð sterkt. Hér ættu menn kannski að skoða það líka að hafa eitthvað slíkt af því að ég sé það hérna að sá sem flytur frumvarpið, hæstv. fjármálaráðherra, er að vanda sig við það að koma með lausn sem menn treysta og sérstaklega atvinnulífið treystir.

Að öðru leyti lít ég á þetta sem gott frumvarp að gefinni hræðilegri stöðu. Auðvitað eiga menn að vinna að því að reyna að losna út úr þeirri stöðu með því að selja þessa banka, einhverja til útlendinga, einhverja til Íslendinga, og til þess að selja þá þarf að búa til traust og alveg sérstaklega gagnvart innlendum aðilum sem eru illa brenndir af vantrausti.