137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[18:06]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér hefur orðið um þetta mál og bregðast við örfáum atriðum sem ég hafði ekki áður farið yfir í framsöguræðu minni.

Í fyrsta lagi var hér nefnt og spurt af fleirum en einum hv. þingmanni hvort eignaumsýslufélagið ætti að færast undir Bankasýsluna og Bankasýslan halda það félag. Það hefur að sjálfsögðu verið rætt og skoðað og reyndar er frumvarpið þannig úr garði gert að það gæti gerst að óbreyttum lögum, samanber síðasta málslið 1. gr. En það hefur líka komið í ljós við skoðun að á því kunna að vera ágallar sömuleiðis. Þannig yrði það þá að Bankasýslan, sem fer með eignarhaldið í viðskiptabönkunum og er auðvitað í eigendahlutverki gagnvart þeim, væri jafnframt eigandi að eignaumsýslufélagi sem þyrfti eðli málsins samkvæmt að hafa mikið saman að sælda við þá hina sömu banka. Það kann því að vera heppilegra að eignaumsýslufélagið starfi sem alveg sjálfstæð eining og sinni hlutverki sínu þannig. Á þessu má sem sagt finna bæði kost og galla.

Í öðru lagi hafa menn nefnt hér Íbúðalánasjóð og Byggðastofnun og spurningu um það hvort þau sem lána- eða bankastofnanir að hluta til ættu ekki alveg eins að færast undir Bankasýsluna. Því er til að svara að reyndar er gert ráð fyrir heilmiklum breytingum á eignarhaldi ríkisins almennt í því frumvarpi til breytinga á stjórnsýslulögum sem hér er á ferðinni og í framhaldinu hefur verið ætlunin að eignarhald ríkisins almennt færðist á eina hendi og yrði þá vistað í fjármálaráðuneytinu í staðinn fyrir að vera dreift á fagráðuneyti í talsvert miklum mæli eins og þetta er í dag. Þannig er meiningin að forræði fyrir landsvæðum og eignum færist almennt til fjármálaráðuneytisins, frá t.d. utanríkisráðuneytinu sem hefur haldið miklar eignir á Suðurnesjum og fleiri aðilum. Í gildandi fyrirkomulagi heyrir Íbúðalánasjóður undir félagsmálaráðherra og Byggðastofnun undir byggðamálaráðherra þannig að það þarf þá lagabreytingar til á þeim væng, en að sjálfsögðu er þetta eitthvað sem menn geta skoðað.

Það er þó rétt að hafa í huga og leggja áherslu á að í þessu frumvarpi um Bankasýsluna er ekki gert ráð fyrir að færa annað en eignir í bönkum, sparisjóðum og eftir atvikum öðrum fjármálafyrirtækjum undir það fyrirtæki en hrófla ekki við eign ríkisins að öðru leyti í sameignarfélögum eins og Landsvirkjun eða öðrum fyrirbærum heldur gert ráð fyrir að það fari með venjubundnum hætti og verði grundvallað í framtíðinni á þeirri eigendastefnu sem einnig hefur borið hér nokkuð á góma.

Í þriðja lagi um form félagsins þá er því til að svara, og það var vissulega vel skoðað og uppi voru bæði sjónarmiðin hvort þetta ætti að vera hefðbundin ríkiseining eða hlutafélag, að hér er um hreint eigendahlutverk að ræða og stjórnsýsluhlutverk. Það er ekki ætlunin að þetta fyrirtæki standi sjálft í neins konar samkeppnisrekstri eða sé í raun og veru úti í samkeppnisumhverfinu að því leyti til heldur er þetta hreint eignarhald ríkisins og stjórnsýsluhlutverk ríkisins. Ég held að hlutafélagavæðingin væri farin að ganga nokkuð langt ef menn stofnuðu opinbert hlutafélag til að eiga í hlutafélagabönkum sem aftur eiga dótturfélög sem eru hlutafélög o.s.frv. Ég held að hér sé um að ræða hreina eigendafúnksjón, hreint stjórnsýslu- og eigendahlutverk ríkisins. Þá er það mitt mat og flestra þeirra sem um þetta fjölluðu, a.m.k. af hálfu fjármálaráðuneytisins, að menn séu komnir út í ófærur með það að færa slíkt yfir í hlutafélagaformið.

Ég tel að það hafi verið misráðið og hafi ekki gefist vel að færa hefðbundið þjónustuhlutverk, hefðbundnar þjónustustofnanir, stjórnsýslustofnanir eða stofnanir og/eða fyrirtæki sem starfa á grundvelli einkaleyfa eða eru í einokunaraðstöðu yfir í hlutafélagaformið. Það er misskilningur, þar grauta menn saman tveimur hlutum sem á að halda aðskildum, þ.e. hefðbundnum rekstri, hefðbundinni eign, hefðbundinni stjórnsýslu ríkisins annars vegar og rekstri sem er úti í samkeppnisumhverfinu og viðskiptalífinu hins vegar. Þarna verða menn að gæta að sér og draga upp einhver skýr og hrein mörk sem ekki hefur verið gert á undanförnum árum heldur hefur þvert á móti þessu verið grautað saman með stundum ekkert allt of gæfulegum afleiðingum. Menn hafi t.d. í huga að með þessu formi fylgja allar sömu kvaðir og skyldur og þegar um ríkið sjálft er að ræða varðandi stjórnsýslu- og upplýsingalög og aðra slíka þætti, aðhald Alþingis og eftirlitshlutverk, rétt þess til upplýsinga og annað í þeim dúr. Hvað hefur gerst þegar menn hafa breytt slíkri stjórnsýslu eða þjónustustarfsemi yfir í hlutafélög? Jú, það er klippt þarna á. Það fyrsta sem yfirleitt hefur gerst er það að viðkomandi stofnanir hafa farið að þrjóskast við að veita t.d. Alþingi upplýsingar um starfsemi sína og borið það fyrir sig að þær þurfi þess ekki lengur vegna þess að þær séu hlutafélög.

Í fjórða lagi hafa menn nefnt spurninguna um hvernig standi til að losa um eign ríkisins á nýjan leik og benda þar réttilega á staflið j í 4. gr. Því er til að svara að þetta hugsa menn sér að útfæra nánar í þeirri eigendastefnu sem vonandi lítur dagsins ljós á næstunni og verið er að leggja lokahönd á í samstarfi fjármálaráðuneytisins og viðskiptaráðuneytisins. Það hefur aldrei verið á dagskrá svo ég viti til að það væri framtíðarmarkmið að ríkið ætti að fullu og öllu um ókomin ár þrjá stærstu bankana og stóran hlut í flestöllum sparisjóðum, ég hef engan hitt sem hefur haldið því fram að það væri það sem menn væru að stefna að eða ætluðu sér að stefna að. Það breytir ekki hinu að ég er ósammála hv. þm. Birgi Ármannssyni sem taldi meginverkefnið vera að koma öllu þessu úr eigi ríkisins eins hratt og mögulegt væri. Er það nú ekki svolítið hugsunarháttur að hætti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 2002? Og gafst það mjög vel, satt best að segja, sú einkavæðing sem þá var rokið í og með þeim aðferðum sem þá voru notaðar? Eiga menn ekki bara aðeins að staldra við og velta því fyrir sér hversu farsælt það var að vaða þar áfram í blindri kreddu frekar en að horfa raunsætt á aðstæður og kunna fótum sínum forráð.

Ég vil segja það alveg skýrt fyrir mitt leyti að ég tel að við eigum að sjálfsögðu að halda því opnu að fara að losa um eignarhald ríkisins þegar aðstæður eru til þess, þegar hægt er að fá gott verð fyrir þá hluti sem ríkið lætur af hendi, ekki mun okkur af veita að endurheimta það mikla fé sem við erum að leggja hér inn, væntanlega á næstu vikum, og helst rúmlega það. Sömuleiðis gildir að ef áhugasamir erlendir aðilar reynast til staðar til að verða meðeigendur að eða jafnvel þó að væri að fullu eigendur að einhverjum af þessum fjármálafyrirtækjum og það losar ríkið undan þeirri kvöð að setja þarna inn mikla fjármuni og binda þar mikla fjármuni, ber að sjálfsögðu að skoða það vandlega og það verður gert og það er gert. Því er haldið algerlega opnu í viðræðum nú um endurfjármögnun bankanna að svo verði gert. Því fylgja auðvitað þeir kostir að með traustum erlendum samstarfsaðilum værum við að tryggja aðgang viðkomandi fyrirtækja að samstarfi við erlenda banka og aðgang að erlendu fjármagni og þar fram eftir götunum þannig að það eru vissulega kostir í því. En það er nú ekki víst að það eigi eftir að reynast þannig að þeir samstarfsaðilar á þessu sviði sem við hefðum helst áhuga á, eins og traustir erlendir bankar sem tækju eigendahlutverk sitt alvarlega, reynist standa í biðröð til þess að fara að axla áhættuna af og bera ábyrgð á því að reka banka á Íslandi á næstunni, því miður. Ég verð nú svolítið að mæla þau varnaðarorð. Það átti að landa hér erlendum banka einu sinni fyrr í sögunni og það reyndist mikill hulduleikur í því máli og er ekki almennilega upplýst enn hvort sá banki (Gripið fram í.) var yfirleitt til eða hver hann var. (Gripið fram í.)

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar og sagði það ótal sinnum úr þessum ræðustóli einmitt á árunum bæði 1996 og 1998 þegar verið var að hlutafélagavæða þáverandi ríkisviðskiptabanka og eins þegar einkavæðingin var að ganga í gegn 2002 að menn skyldu stíga varlega til jarðar og læra m.a. af reynslu annarra Norðurlanda sem lærðu sína lexíu í bankakreppunni upp úr 1990. Hvað lærðu Norðmenn m.a. af því? Það var að ástunda engan glannaskap í þessum efnum. Þeir mótuðu, það var reyndar norska Stórþingið sem gerði það, með Stórþingssamþykkt þá stefnu að norska ríkið mundi hreyfa sig mjög yfirvegað í þessum efnum og eftir því sem það drægi úr eignarhlut sínum í bankakerfinu, sem það fékk að miklu leyti í fangið í kjölfar bankakreppunnar, mundi það gera það í rólegum skrefum og trappa eignarhaldið niður þannig að það yrði enginn óróleiki í norska bankakerfinu við það. Og það hafa þeir gert með alveg ágætum árangri og standa vel að vígi í dag með talsvert eignarhald í a.m.k. einum af stærstu bönkum Noregs enn þann dag í dag á grundvelli þessarar stefnu.

Hvað kemur í ljós núna eftir bankahrunið þegar við skoðum hvernig löndin koma út úr því? Þau lönd og þau bankakerfi sem standa þetta langbest af sér eru íhaldssömu bankakerfin, þau sem kunnu fótum sínum forráð og fóru ekki af glannaskap og áhættusækni út í þær æfingar sem núna hafa fellt stóra hluta fjármálakerfisins í heiminum. Það eru bankakerfi eins og í Kanada, í Noregi og í Færeyjum. Er það nú ekki þannig að einmitt í þessum löndum nema kannski síst í Kanada hafa menn lært lexíuna, dýrkeypta lexíu? Norðurlöndin gengu í gegnum nákvæmlega þetta sama. Bankakerfin og fjármálakerfin sem lentu þar í erfiðleikum á sínum tíma voru mörg hver nýlega einkavædd og kunnu ekki fótum sínum forráð, voru þátttakendur í þenslu og bólu sem endaði með ósköpum eins og kunnugt er.

Af þessu hefðum við Íslendingar getað lært, þetta blasti allt við, það blasti allt við hér frá 2005 hvað var að gerast, það stóð í greinargerð með þingmáli sem var flutt hér á útmánuðum 2005 að nákvæmlega sömu hættumerki væru að teiknast upp á Íslandi og voru í aðdraganda bankakreppunnar á hinum Norðurlöndunum upp úr 1990. Það hlustaði náttúrlega enginn maður á það enda kannski ekki réttur maður sem setti þetta niður á blað. En þá mátti þetta vera hugsandi mönnum ljóst.

Við höfum væntanlega ekki, Íslendingar, áhuga á því að endurtaka leikinn í einhverju bríaríi og það segi ég með fullri virðingu við hv. þm. Birgi Ármannsson. Ég verð að segja að virðingu ber ég fyrir hv. þm. Pétri H. Blöndal þegar hann nálgast hlutina nú eins og hann gerir af sanngirni og viðurkennir að við erum í þeirri stöðu sem við erum og við þurfum að vinna úr henni á skynsamlegan hátt og ég þakka honum fyrir vinsamleg ummæli að uppistöðu til um þetta frumvarp og ég treysti því að flokksbræður hans hafi lagt eyrun við.

Ég er sammála hv. þm. Álfheiði Ingadóttur að sjálfsögðu um það að mótun eigendastefnunnar er mjög mikilvæg og mjög brýn og þótt fyrr hefði verið. Auðvitað er það miklu, miklu meira en tímabært að menn leggi línur í þeim efnum hvernig ríkið stendur að málum að því marki sem það er eigandi að stofnunum og fyrirtækjum sem eru úti í viðskiptalífinu eða tengjast því og hafa þar hlutverki að gegna. Það er mjög mikilvægt að draga þau landamæri skýrt upp og að þar sé með skilvirkum og gagnsæjum hætti haldið á málum. Það er alveg sjálfsagt mál að kynna þá stefnu fyrir Alþingi. Ég get ekki lofað því að hún verði fullmótuð í þeim ítarlega og vandaða skilningi sem gaman væri að geta haft hana strax í byrjun. Þegar við höfum skoðað hvernig þetta hefur verið gert hjá ýmsum nágrannalöndum þá er þetta viðamikil og mjög ítarleg stefnumörkun þannig að hugsanlega förum við þá leið að gefa út fyrstu útgáfu sem geti svo sætt endurskoðun fljótlega í framhaldinu og þá gjarnan í samstarfi við Alþingi sem að sjálfsögðu má mjög gjarnan leggja sitt lið í þessum efnum sem eðlilegt er.

Varðandi svo að lokum spurningu um fyrirkomulag í þessum efnum og samstarf löggjafans og framkvæmdarvaldsins um þetta, þá er heppilegast að það sé bara gott og menn hjálpist að við hlutina. Ég veit ekki hvort ég á að skilja jafnvel einhverja svo að þeir séu langleiðina að leggja til að Alþingi taki að sér að fara með eigendahlutann. Það er kannski hugsanlegt fyrirkomulag en það væri þá mikið nýmæli. Alltsvo, ég held að þetta sé nú þannig að annaðhvort fari framkvæmdarvaldið með þetta eins og venjan er og þá liggur auðvitað hin pólitíska ábyrgð þar og þá verður það að vera ráðherra viðkomandi málaflokks sem axlar hina pólitísku ábyrgð gagnvart þingi og þjóð. Það breytir að sjálfsögðu ekki því að Alþingi getur ákveðið að það hafi skilgreindu hlutverki að gegna og það leggi sitt af mörkum í slíkum efnum og auðvitað eru fjölmörg dæmi um blandaða málsmeðferð í slíkum tilvikum þar sem Alþingi kemur að eins og hér var áður á tíð, oft með því að kjósa stjórnir hlutfallskosningu þó að viðkomandi stofnun heyrði síðan undir og væri á ábyrgð pólitísks ráðherra. En hér er farin þessi leið sem ég tel að sé ágætlega vel undirbyggð og rökstudd og fyrst og fremst nálgunin sú að búa til þá fjarlægð sem hér hefur margoft borið á góma og reyna eins og nokkur kostur er að byggja þetta á faglegum forsendum og menn mega reyna að styrkja þær eins og þeir lífsins mögulega geta í þingnefndinni. Glaðastur manna (Forseti hringir.) skal ég vera ef menn finna leiðir til þess að hafa það algerlega yfir allan vafa hafið að í þetta geta aldrei valist annað en hæfustu menn.