137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

ráðgjafarstofa fyrirtækja í greiðsluörðugleikum.

116. mál
[18:41]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F):

Frú forseti. Ég þakka kærlega fyrir umræðuna. Það er mjög ánægjulegt þegar við erum öll sammála og jákvæð að þessu leyti þó að við séum kannski ekki að tala um hluti sem eitthvað sérstaklega skemmtilegt er að ræða. En ég held að þetta geti einmitt verið fyrsta skrefið í því, ef við náum að samþykkja þetta, að breyta viðhorfum samfélagsins gagnvart fyrirtækjaeigendum sem lenda í erfiðleikum. Það viðhorf hefur allt of lengi verið ríkjandi í samfélaginu að þeir sem lenda í erfiðleikum geti sjálfum sér um kennt, þeir séu minni menn fyrir vikið. Rannsóknir hafa hins vegar ítrekað sýnt fram á að það eru ótrúlega fjölbreyttar ástæður fyrir því að fyrirtæki lenda í örðugleikum. Eins og staðan er hjá okkur á Íslandi í dag held ég að langflest þeirra fyrirtækja sem eru í miklum rekstrarerfiðleikum beri mjög litla ábyrgð á þeim örðugleikum sem þau eru í. Ef við styðjum ekki við þetta fólk og sjáum til þess að fyrirtæki geti haldið rekstri áfram eða hætt rekstri sem fyrst og með sem minnstum skaða fyrir bæði einstaklinginn og samfélagið gætum við verið að tapa mjög verðmætri kunnáttu og þekkingu út úr samfélaginu. Ég hef kynnst fólki sem hefur lent í erfiðleikum í fyrirtækjarekstri og hefur jafnvel, eins og ég nefndi í framsögu minni, orðið líkamlega og andlega veikt vegna þess álags sem því hefur fylgt, það hefur ekki fengið neinn stuðning neins staðar í gegnum erfiðleikana. Við þekkjum örugglega mörg dæmi um það að fólk tapi heimili sínu, vinnu sinni og í sumum tilvikum jafnvel fjölskyldu sinni út af slíku. Þetta er geysilega stórt verkefni og það skiptir að mínu mati mjög miklu máli að ríkið komi til móts við þetta fólk þannig að við getum náð að hefja hina margumtöluðu endurreisn Íslands sem allra fyrst.

Ég vonast til að þetta verði unnið hratt og vel í efnahags- og skattanefnd og að við getum afgreitt þetta á næstu einni til tveim vikum.