137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

ráðgjafarstofa fyrirtækja í greiðsluörðugleikum.

116. mál
[18:44]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka það fram að mér finnst efni þessa frumvarps ákaflega jákvætt. Ég tek undir að það er mjög alvarleg staða hjá mörgum fyrirtækjum sem getur haft fjárhagslegar, andlegar og heilsufarslegar afleiðingar fyrir eigendur þeirra. En ég vil velta því upp í þessari umræðu, og kannski spyrja hv. þm. Eygló Harðardóttur að því, hvort heppilegt sé að bæta við enn einu fyrirbærinu í stað þess að ríkið sem eigandi bankanna krefji þá þess að þeir veiti betri þjónustu til fyrirtækja og heimila í landinu.

Ég var formaður framkvæmdastjórnar Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna sem hefur verið stækkuð mjög því að fólk leitar þangað gjarnan um þjónustu sem eðlilegt er, enda er það verkefni sem er til mikillar fyrirmyndar. Við erum með þrjá banka í eigu ríkisins, við erum að stofna eignaumsýslufélag og einhvers konar eignarhaldsfélag eða bankasýslu, ef af verður, og svo erum við með Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og nú ætlum við að bæta enn einu fyrirbærinu við. Mér finnst markmiðið mjög göfugt — ég tel mikilvægt að það komi fram — en við eigum þau fjármálafyrirtæki sem ættu að vera að veita þessa þjónustu. Ég spyr hv. þm. Eygló Harðardóttur hvort hún sjái ekki að hægt sé að ná þessum markmiðum fram innan bankakerfisins.