137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

ráðgjafarstofa fyrirtækja í greiðsluörðugleikum.

116. mál
[18:46]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa fyrirspurn.

Þegar ég var að tala um þetta við bæði starfsmenn Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og nokkra starfsmenn líka atvinnuþróunarfélaganna úti á landi þá komu upp alls konar samkeppnissjónarmið líka, um hvort það væri rétt hjá ríkinu að veita þessa þjónustu af því að fyrirtækin ættu bara að geta keypt þetta til dæmis hjá bókhaldsskrifstofum eða ráðgjöfum. Niðurstaða okkar, sérstaklega varðandi einyrkja og lítil fyrirtæki, var að þegar þau lenda í erfiðleikum þá væru hreinlega ekki til fjármunir til þess að kaupa svona þjónustu.

Ástæðan fyrir því að ég tel ekki heppilegt að þetta væri innan bankanna er sú að þarna eru atvinnurekendurnir að leita sér að óháðri ráðgjöf, einhverjum sem getur verið þeirra fulltrúi þá jafnvel í samningaviðræðum eða stuðningur við þá. Bankarnir eru náttúrlega í því hlutverki að krefja fyrirtækin jafnvel um mikla fjármuni eða setja þeim mjög ströng skilyrði og síðan á endanum kannski neyðast til þess að taka yfir rekstur viðkomandi fyrirtækis. Ég held að það geti sett bankana í mjög erfiða aðstöðu ef þeir eiga þarna að vera í rauninni báðum megin við borðið.

Við tókum að vísu nýlega ákvörðun um að setja umboðsmenn fyrirtækja innan bankanna. Það fúnkerar kannski að vissu leyti sérstaklega fyrir stóru fyrirtækin. En ég held að það geti samt alltaf verið mjög erfitt fyrir banka eða nokkra stofnun að vera svona báðum megin við borðið. Það er ástæðan fyrir því að ég tel að þetta gæti hentað mjög vel hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og þyrfti þá svo sem ekki nauðsynlega að vera neitt, eins og þú segir, sérstakt fyrirbæri heldur gæti það verið hluti af þeirri starfsemi sem þeir eru þegar með. (Forseti hringir.) En þetta væri þá nýtt verkefni.