137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

117. mál
[19:00]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að óska hv. þingmönnum Borgarahreyfingarinnar til hamingju með þetta frumvarp. Ég skildi það svo af ræðu hv. flutningsmanns að þetta væri fyrsta frumvarpið sem flokkurinn legði fram og í sjálfu sér er vel við hæfi að það sé einmitt um það málefni sem hér er rætt.

Ég vildi spyrja hv. þingmann að tvennu. Annars vegar hvort hugsuð hafi verið einhvers konar lágmarksþátttökuskilyrði í slíkum þjóðaratkvæðagreiðslum ef til kæmi á grundvelli þessara laga.

Hitt sem ég hefði áhuga á að heyra um kemur fram í greinargerð. Að sjálfsögðu getur þjóðaratkvæðagreiðsla ekki verið bindandi að núgildandi stjórnarskrá eða óbreyttri stjórnarskrá en það kann að koma upp sú staða að um eitthvert ákveðið mál fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla og atkvæðagreiðslan fari þannig að rétt rúmlega 50%, 50,1% segi já, 49,9% segi nei og þá kann að vera að málið komi aftur til kasta Alþingis og þá eru þingmenn bundnir sannfæringu sinni umfram allt annað. Nú kynni það að vera að það kæmi í hlut hv. þingmanna Borgarahreyfingarinnar að hafa sannfæringu í máli sem þjóðin hefði með naumum meiri hluta sagt já við en sannfæring viðkomandi þingmanna væri nei, og þá leikur mér hugur á að vita, miðað við hvernig þessi uppsetning er á málinu: Mundi hv. þingmaður, flutningsmaður frumvarpsins, standa við sannfæringu sína ef sú staða kæmi upp að naumur meiri hluti þjóðarinnar segði já í slíku máli en sannfæringin og þar með stjórnarskrárbundin skylda þingmannsins væri sú að segja nei?