137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

117. mál
[19:06]
Horfa

Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (Bhr) (andsvar):

Frú forseti. Ég deili þessum áhyggjum hv. þingmanns að þetta gæti orðið mjög knappt út af því að við vitum að það er mjög mjótt á mununum í afstöðu þjóðarinnar til þessa máls. Það væri náttúrlega fullkominn heimur ef við gætum haft það þannig að þetta væri bindandi kosning varðandi Evrópumálin. Mér sýnist að þetta frumvarp komi ekki til með að geta lagfært það. Ég mæli með því og þætti bara mjög vænt um það ef hv. þingmaður kæmi með tillögur um hvernig mætti lagfæra þetta og færa til betri vegar eða einhverjir af samflokksmönnum hans, því að ég lít svo á og vonast til þess að við þingmenn getum farið að vinna svolítið óháð flokkslínum og komið okkur upp úr því flokksfari þar sem fólk er stöðugt að ræða um hvað gerðist fyrir 10 árum og þess vegna megi það segja eitthvað út af því að einhver sagði eitthvað einu sinni eða gera eitthvað. Ég óska því eftir samvinnu við að frumvarpið nái að komast í gegn, því að það eru margir gallar í hinu sem við fengum í hendur í dag og ég hef ekki haft tækifæri til að fara almennilega yfir. En ég lít svo á að þetta frumvarp sé til stórkostlegra bóta og muni einmitt gefa okkur kost á að vinna á svona stórum málum eins og Evrópusambandsmálinu á þann hátt að það endurspegli vilja þjóðarinnar.