137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

117. mál
[19:13]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Bhr):

Frú forseti. Ég fagna því, og ég held að flestir góðir menn fagni því, að hlutfall kvenna á Alþingi skuli nú vera hærra en nokkru sinni fyrr, ekki síst þegar þess er gætt að innan við 100 ár eru frá því að konur fengu atkvæðisrétt. Ástæðan fyrir því að konur höfðu ekki atkvæðisrétt og þaðan af síður kjörgengi til Alþingis var fordómar. Því réðu efasemdir um að konur hefðu yfirleitt getu til að fjalla um stórar og flóknar spurningar sem snúast um eitthvað meira en heimilishald, barnauppeldi og tísku. Svipaðar spurningar heyrast þegar til umræðu eru þjóðaratkvæðagreiðslur, þá heyrast efasemdir um að þjóðin, almenningur, geti fjallað af skynsamlegu viti um stórar spurningar. Þessir fordómar eru sömu fordómar og lögðu stein í langa og torsótta götu kvenna til jafnréttis. Þessum fordómum fylgir misrétti sem speglast í því að þjóðinni er ekki treyst. Og ekki er nóg með að þjóðinni sé ekki treyst af þeim aðilum sem lýsa sig mótfallna þjóðaratkvæðagreiðslum heldur er þetta líka spurning um að vantreysta sjálfu lýðræðinu. Það stendur ekki upp á okkur, þjóðkjörna fulltrúa, að halda sjálfsögðum mannréttindum frá þjóðinni, mannréttindum sem felast í því að mega taka afstöðu oftar en á fjögurra ára fresti til stórra spurninga sem varða líf og framtíð þjóðarinnar.

Það hefur komið á daginn, held ég megi fullyrða, að konur eru andlegir jafnokar karlmanna. Ég hygg að það muni líka koma á daginn, sé það ekki þegar komið á daginn, að almenningur er fullkominn jafnoki þjóðkjörinna fulltrúa sinna. Ef við þjóðkjörnir fulltrúar vantreystum þjóðinni til að kjósa sér örlög og velja og hafna erum við um leið að gefa til kynna að við höfum það álit á þjóðinni að hún sé að yfirgnæfandi meiri hluta skipuð vanvitum sem ekki séu til þess fallnir eða til þess hæfir að taka ákvarðanir um stórar spurningar.

Þjóðaratkvæðagreiðslur eru hluti þess nútíma sem koma skal fyrr en síðar. Við þurfum ekki lengur að hafa áhyggjur af því í sambandi við þjóðaratkvæðagreiðslur, sem var kannski skýring á því að áður fyrr voru menn sparir á að efna til kosninga — sá tími er liðinn að kjósendur þurfi í misjöfnum veðrum að sundríða jökulár til að komast á kjörstað, nútímasamgöngur hafa gert það öllu einfaldara en það var fyrir 100 árum eða svo. Þjóðaratkvæðagreiðslur geta í framtíðinni þróast á þann veg að atkvæðagreiðsla fari fram með allt öðrum hætti en tíðkast í venjulegum kosningum eins og við þekkjum þær, en það er reyndar framtíðarmúsik sem ekki er verið að spila í þessu frumvarpi. Í þessu frumvarpi er verið að tala um hér og nú og hvað hentar þjóðfélagi okkar nú um stundir.

Það er meira en tímabært að þingrofsréttur sé ekki lengur í höndum eins manns, forsætisráðherrans. Það er tímabært að færa þingrofsvaldið til þjóðarinnar því að það er þjóðin sjálf sem á að taka ákvarðanir í sínum stærstu málum. Aukin aðkoma almennings að því að afgreiða stórar spurningar hefur í för með sér aðhald sem er ekki bara gagnlegt heldur líka nauðsynlegt, aðhald með löggjafar- og framkvæmdarvaldinu. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru í raun og veru sjálfsagður réttur þjóðarinnar til að taka ákvarðanir í sínum eigin málum rétt eins og það var sjálfsagður réttur kvenna, sem þeim var neitað um allt of lengi, svo lengi að við skömmumst okkar fyrir það nú, að taka ákvarðanir í málum sem þær varðaði.

Ég ætla ekki að setja á lengri tölu um frumvarpið en mig langaði til að undirstrika að lög um þjóðaratkvæðagreiðslur, lög sem gera þær mögulegar og gerir mögulegt að þær fari fram með skipulögðum og skynsamlegum hætti, eru hvorki meira né minna en þjóðþrifamál.