137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

117. mál
[19:21]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil fyrst beina til hv. þm. Þráins Bertelssonar spurningu sem vaknaði við þau orð að færa þyrfti þingrofsréttinn, heimildina, til fleiri en forsætisráðherra og þá væntanlega til þingsins sjálfs. Þá kemur aftur upp sú staða að samkvæmt því frumvarpi sem hér er til umræðu er ekki gert ráð fyrir því að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu sé bindandi fyrir þingið. Enn á ný gæti þá komið upp sú staða að í kosningu og atkvæðagreiðslu væri lítill meiri hluti með máli, t.d. eins og um þingrof, og á sama tíma væri meiri hluti þingmanna þeirrar skoðunar, og hefði sannfæringu fyrir því, að ekki bæri að grípa til þingrofs og ber þeim þá skylda, samkvæmt stjórnarskrá, að standa gegn slíkri tillögu. Enn og aftur: Þar sem ekki er gert ráð fyrir neinum stjórnarskrárbreytingum í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar mundi ég gjarnan vilja heyra frá hv. þingmanni hvernig hann sæi fyrir sér að á grunni þessa frumvarps væri hægt að ganga til atkvæðagreiðslu þar sem síðan yrði um þingrof að ræða í framhaldinu.