137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

117. mál
[19:22]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Bhr) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir góðar og skynsamlegar spurningar, bæði vegna ræðu minnar áðan og eins vegna framsöguræðu hv. þm. Birgittu Jónsdóttur. Það er ekkert launungarmál og alveg auðséð af þessu frumvarpi að það er sniðið að þeirri stjórnarskrá sem við höfum nú og búum við. Þar af leiðir að ekki er hægt að ganga lengra í frumvarpinu varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur en til að mynda að neita sér um að nota orðið „ráðgefandi“ um þær og tala eingöngu um þjóðaratkvæðagreiðslur. Þetta leiðir að sjálfsögðu til þess að í ákveðnum tilvikum kann að verða um það að ræða að Alþingi, og reyndar þjóðin sjálf, þurfi að fóta sig á nokkurs konar lögfræðilegu einskis manns landi þar sem engar reglur gilda aðrar en heilbrigð skynsemi og það sem síðast og að lokum ræður úrslitum um afstöðu, a.m.k. þingmanna, er eiður þeirra um að fylgja sannfæringu sinni.