137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

117. mál
[19:32]
Horfa

Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (Bhr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar athugasemdir. Að sjálfsögðu göngum við út frá því að atkvæðagreiðslan verði bindandi þegar breytingin mun fara undir stjórnarskrárbreytingar og það er ástæðan fyrir því að það stendur hvergi „ráðgefandi“ í þessu frumvarpi.

Varðandi þann lið frumvarpsins sem hv. þingmaður fjallar um, að ekki sé skynsamlegt eða gæti orðið mjög kostnaðarsamt að þjóðaratkvæðagreiðsla mundi ekki fara fram þegar aðrar kosningar eiga sér stað þá er það einfaldlega út af því að í fyrsta lagi gerum við ekki ráð fyrir að það verði mikið um þjóðaratkvæðagreiðslur. Það er reynsla í öðrum löndum að þetta sé fyrst og fremst tæki til að veita stjórnvöldum aðhald. En það er líka mikil hætta á að þetta mundi falla í skuggann af öðrum kosningum ef það er samhliða. Síðan er stefnan hjá okkur að slíkar kosningar verði rafrænar með tímanum þannig að kostnaðurinn ætti að vera sem minnstur fyrir almenning og þjóðina að taka þátt í og nýta sér þetta verkfæri til þess að hafa áhrif á samfélagið sitt.

Við munum að sjálfsögðu fara yfir öll þessi atriði og við erum bara ákaflega þakklát fyrir þær skynsamlegu tillögur sem hér hafa komið fram. Eins og ég sagði áðan er frábært að sjá fram á að við getum fundið þverpólitískan flöt á að koma þessu frumvarpi í gegn.