137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

117. mál
[19:52]
Horfa

Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (Bhr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans sýn á þetta. Það er ánægjulegt að vita til þess að það er almennur vilji, a.m.k. af því sem maður hefur heyrt, fyrir því að þjóðaratkvæðagreiðslur verði væntanlega hluti af stjórnarskrá okkar. Mig langaði aðeins til að benda á að ákvæðið um einn þriðja hluta þingmanna eins og er í Danmörku hefur aðeins verið notað einu sinni. Þetta er mjög gott aðhald fyrir meiri hlutann til að taka ekki upp stór mál sem kljúfa þjóðina í herðar niður eins og við höfum fengið að upplifa trekk í trekk á Íslandi og núna t.d. þegar við þurfum síst á því að halda.

Ástæðan fyrir því að við erum spennt fyrir Lýðræðisstofu er einfaldlega sú að það er ekki til nein stofnun í dag sem getur unnið úr upplýsingum á óhlutdrægan hátt. Við teljum líka að það sé alger forsenda að svona þjóðaratkvæðagreiðslur séu þess eðlis að ekki sé verið að reyna að beina þjóðinni eða þvinga hana inn í einhvern ákveðinn farveg eins og margir upplifa í dag.

Ég vona enn og aftur að þetta mál fái góða umfjöllun og finnst þetta mjög góð hugmynd hjá hv. þingmanni að samþætta þessi tvö frumvörp í nefnd og vona að það takist eins vel og í utanríkismálanefnd með ESB.