137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

117. mál
[20:00]
Horfa

Valgeir Skagfjörð (Bhr):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmönnum fyrir heillaóskir okkur til handa varðandi þetta frumvarp. Borgarahreyfingin var m.a. stofnuð til að koma á breytingum á stjórnskipulagi íslenska lýðveldisins. Við vildum færa valdið til fólksins og gefa því möguleika á að hafa áhrif á mikilvæg mál með því að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslur um þau.

Tilgangurinn með frumvarpinu er m.a. sá að skapa virkara lýðræði og auka aðhald gagnvart framkvæmdar- og löggjafarvaldinu, það hefur árum saman verið krafa almennings. Okkur þykir afar brýnt að t.d. þingrofsvald sé ekki einungis á einni hendi, í höndum forsætisráðherra, svo að dæmi sé tekið. Lýðræðisumbætur eru líka fyrirferðarmikill hluti stefnuskrár Borgarahreyfingarinnar og í þeim pakka er m.a. að finna atriði eins og persónukjör í alþingiskosningum, stjórnlagaþing, þjóðaratkvæðagreiðslur og margt fleira.

Það er afar brýnt, frú forseti, að til að skapa almenna sátt í samfélaginu verði þjóðinni sýnt, svo ekki verði um villst, að hið háa Alþingi hyggist beita sér í alvörunni fyrir raunverulegum breytingum í þágu almennings. Það er mín skoðun að allt of lengi hafi formfastir stjórnmálaflokkar lokast inni í eigin sjálfhverfa kerfi og oft og tíðum látið hagsmuni flokksins ganga fyrir í kapphlaupi um völdin. Það þarf að rjúfa ákveðinn vítahring ákveðinnar flokkshugsunar og fara að leita nýrra lausna, opna skilningarvitin fyrir nýjum hugmyndum og nýjum leiðum jafnvel þó að maður hafi ekki átt hugmyndina sjálfur.

Virk þátttaka borgaranna í stjórnmálum er ekki nema af hinu góða og með því að gefa fólki tækifæri til að kjósa um einstaka mál finnur fólk, svo ekki verður um villst, að því er treyst og þegar send eru slík skilaboð mun það hafa þau áhrif að fólk fer að treysta stjórnmálamönnum aftur. Eins og staðan er núna njóta stjórnmálamenn ekki mikils trausts meðal almennings. Það þarf kjark til að fara út fyrir þægindahringinn, það þarf kjark til róttækra breytinga og það eina sem maðurinn getur verið nokkurn veginn viss um er að heimurinn tekur sífelldum breytingum frá degi til dags, klukkustund til klukkustundar. Á þeim krossgötum sem þjóðin stendur núna er eiginlega ekki annað hægt en gera breytingar. Þær eru bráðnauðsynlegar. Þær þarf að gera eins hratt og hægt er. Ég geri mér grein fyrir því að það þarf að vanda til þess sem lengi á að standa.

Það á að vera sjálfsagður réttur almennings að fá að hafa áhrif á þau mál sem á honum brenna og varða lífsafkomu og öryggi. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru bara eitt lítið hænuskref í átt að breytingum. Við þurfum að fara í 7 mílna stígvélin, stíga miklu stærri skref, og breytingarnar þurfa að verða miklu meiri og víðtækari í nánustu framtíð.

Frú forseti. Nú er tækifærið til að vinna traust almennings á ný með því að þora að breyta. Flokkarnir tveir sem nú sitja í ríkisstjórn lofuðu því fyrir kosningar að innleiða persónukjör, þeir lofuðu lýðræðisumbótum, þeir lofuðu heiðarlegum stjórnmálum og gagnsærri stjórnsýslu. Það var engu líkara en þeir hefðu tekið gervalla stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar upp á sína arma. Gott og vel, nú er tækifæri til að standa við stóru orðin.