137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

117. mál
[20:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslu sem Borgarahreyfingin flytur og ég óska henni til hamingju með það. Þetta er afskaplega mikilvægt mál og ég hef lengi haft áhuga á því. Í 2. gr. stjórnarskrár Íslands stendur, með leyfi frú forseta: „Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvald.“ Það er sem sagt enginn annar en forseti og Alþingi sem setja lög. Þjóðin getur ekki sett lög. Það er þess vegna sem ég lagði svo mikla áherslu á það í vor að menn mundu samþykkja breytingar á 79. gr., sem fjallar um breytingar á stjórnarskránni, en því miður misstu menn af því tækifæri — þar sem það var ekki gert í vor eru reglurnar þannig að um leið og búið er að samþykkja breytingu á stjórnarskrá þarf að rjúfa þing og efna til kosninga. Það þýðir að breytingar á stjórnarskrá eru alltaf gerðar í lok kjörtímabils þannig að við þurfum að bíða í fjögur ár eftir því nema menn ætli sér að rjúfa þing áður.

Ef breyting á stjórnarskrá hefði verið samþykkt fyrir kosningar í vor hefðum við t.d. getað samþykkt núna þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingu á stjórnarskránni. Það hefði ég viljað og sá að menn voru að missa af þessu. Sú þjóðaratkvæðagreiðsla yrði annars eðlis en við erum að tala um hér því að hér vantar alveg ákvæði um það hversu margir skuli samþykkja tillöguna sem er til umræðu. Ef menn ætla að breyta stjórnarskrá þarf að fara fram kosning hjá öllum landsmönnum og hver maður þarf að hafa eitt atkvæði, þ.e. allir hafa jafnan rétt, en a.m.k. 40% skulu samþykkja, ég tel það algert lágmark — helst 50% skulu samþykkja breytingu á stjórnarskrá. Breytingar á stjórnarskrá á að gera mjög hægt, af íhaldssemi og mjög sjaldan af því að þetta eru grundvallarlög þjóðfélagsins. En því miður misstum við af þessu tækifæri og nú verðum við bíða eftir nýjum kosningum áður en við getum farið að huga að því að koma með breytingar á stjórnarskránni og áður en við förum að geta komið með frumvörp sem breyta lögum út af 2. gr. stjórnarskrárinnar.

Það er ýmislegt sem ber að varast við þjóðaratkvæðagreiðslur og það eru ýmsir kostir sem hún hefur. Það sem ber að varast er að hún verði misnotuð. Einhver lítill hópur manna keyrir í gegn eitthvert áhugamál sitt, hvort sem það eru laxveiðimenn, hrossaræktendur eða hvernig það nú er. Þeir hafa ógurlegan áhuga á einhverju máli en aðrir hafa engan áhuga. Segjum að 11% þjóðarinnar séu í slíkum hóp og hann knýr fram þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Svo eru einhver lög samin og efnt til kosninga og 20% þjóðarinnar taka þátt í henni, það hefur enginn áhuga á þessu. Þessi 11% greiða atkvæði með málinu og þá eru þessi 11% farin að ráða fyrir þjóðina. Þetta ber að varast. Það þarf að setja einhvern þröskuld, ég mundi segja með lagasetningu. Við stjórnlagabreytingu þarf þröskuldurinn að vera svona 40–50%. Við breytingu á lögum þyrftu það að vera 25–30%, að 25–30% af kosningarbærum mönnum segi já við ákveðnu lagafrumvarpi.

Það er fleira sem þarf að skoða í þessu sambandi. Ég mundi t.d. vilja skoða rafrænar kosningar. Ég sé það fyrir mér að það geti orðið mjög spennandi, sérstaklega þegar menn verða komnir með kerfi sem er orðið skothelt. Það er reyndar dálítið langt því frá að menn treysti því almennt en þá gætu menn haft kosningar miklu ódýrari en verið hefur hingað til og þær gætu líka verið oftar. En það þarf líka að gæta að því að ekki má þreyta fólk með allt of mörgum kosningum. Ef það yrðu kosningar einu sinni í viku held ég að mönnum færi að leiðast það.

Annað atriði vil ég benda á. Einu sinni var rætt um fjölmiðlafrumvarp. Þeir sem voru á móti því, stjórnarandstaðan, sögðu eftir þrjá mánuði: „Við höfum ekki fengið nægan tíma til að kynna okkur málið. Við þurfum meiri tíma til að kynna okkur málið.“ Samt hafði hún fengið sérfræðinga og allt það sem hægt var. Hvernig á aumingja þjóðin að greiða atkvæði um mál af því tagi, þjóðin hefur ekki marga mánuði til að kynna sér málið og ekki aðgang að öllum þeim sérfræðingum sem til þekkja. Það er nefnilega þannig að ef málin eru mjög flókin og erfið úrlausnar þá getur það orðið erfitt að mynda sér skoðun þannig að skotheld sé. Menn geta náttúrlega myndað sér einhverja flýtiskoðun en það getur verið að hún sé á röngum grunni byggð. Það er því dálítill vandi hvaða mál yrðu borin undir þjóðina og að hún hafi tíma til að mynda sér skoðun. En ég vantreysti þjóðinni engan veginn til að mynda sér skoðun í málum almennt séð og mundi vilja að þjóðaratkvæðagreiðslur yrðu annað slagið, ekki allt of oft en samt ekki allt of sjaldan og um þau mál sem skipta máli.

Þetta er það sem ég vildi segja um þetta. Ég sakna þess hve fáir þingmenn taka þátt í umræðunni og ég sakna þess sérstaklega að ekki tókst að breyta 79. gr. í vor og þykir það mjög leitt.