137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

117. mál
[20:15]
Horfa

Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (Bhr) (andsvar):

Frú forseti. Ástæðan fyrir því að það stendur hvergi í þessu frumvarpi að þetta sé ráðgefandi er að stefnan er að sjálfsögðu sú að þetta verði bindandi um leið og búið er að rjúfa þing og hægt að koma þessu vonandi inn í stjórnarskrá landsins.

Ég veit ekki hvort hv. þingmaður var hér inni þegar við ræddum um að það væri bara mjög ánægjulegt og gagnlegt að sem flestir kæmu að þessu máli og kæmu með tillögur að úrbótum, við fögnum öllum tillögum í því. Ég segi eins og fleiri sem hafa talað hér að ég sakna þess að sjá ekki þingmenn ræða hér um þetta mál sem margir hafa sagt að sé mikilvægt. Það hefur enginn hvorki úr Framsókn né Samfylkingunni fjallað um það og sakna ég þess.