137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

117. mál
[20:16]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Bhr) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Pétri Blöndal að ég held að æskilegt sé að skoða það að setja inn einhvers konar lágmark þannig að laxveiðimenn geti ekki níðst á okkur hinum og enn síður hrossaræktendur.

Birgitta var búin að svara þessu svolítið með Lýðræðisstofuna. Hún er náttúrlega að hugsa til þess að einfalda upplýsingagjöfina og veita upplýsingar á sem hlutlausastan hátt.

Hvað varðar rafrænar kosningar er áhugaverð tilraun í gangi í Reykjanesbæ. Þar er íbúavefur sem heitir mittreykjanes.is. Allir íbúar í Reykjanesbæ fá aðgang að þessum vef og þarna er virkt íbúalýðræði. Ég held að það væri vert fyrir allsherjarnefnd að skoða hvernig þetta fer fram þar. Þetta er líka þjónustuvefur þannig að það er ekki allt þarna sem nýtist við þjóðaratkvæðagreiðslur en þarna geta íbúar t.d. komið á framfæri tillögum til bæjarins. Þetta er virkilega áhugaverð tilraun, ég held að hún hafi bara heppnast vel og þetta sé raunverulegt og virkt íbúalýðræði því að fólkið í landinu og í bæjarfélögunum vill taka þátt í myndun þjóðfélagsins og sköpun þess.