137. löggjafarþing — 25. fundur,  26. júní 2009.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að það verður auðvitað mikið umhugsunarefni og umfjöllunarefni í þinginu á næstu vikum, Icesave-samningarnir og þær miklu skuldbindingar sem í þeim felast. Ég held út af fyrir sig að þau sjónarmið sem fram koma hjá þessum sænska sérfræðingi þurfi ekki að koma á óvart. Það eru út af fyrir sig sjónarmið sem hafa heyrst hér og jafnframt var lýst áhyggjum í skýrslugerð á vegum Evrópuþjóðanna af þessu fyrirkomulagi og ágöllum þess og þetta eru auðvitað þau sjónarmið sem Ísland hefur haldið á lofti í samningaviðræðunum. Sjónarmiðið er þó auðvitað fyrst og fremst það að hér má ekki ganga svo langt í að leggja skuldir á komandi kynslóðir á Íslandi og Ísland að landið standi ekki undir því. Þess vegna eru það auðvitað endurskoðunarákvæði samninganna við Holland og Bretland sem hér þarf að rýna alveg sérstaklega í í þinginu og þær tilvísanir í takmörkun á greiðsluþoli Íslands sem sömuleiðis er þar að finna vegna þess að þar hljótum við að binda vonir við að Ísland hafi þau tæki til að takmarka ábyrgð sína. Ef allt fer á versta veg og minna verður úr eignunum en ætla mætti og hagvöxtur hér og efling atvinnulífs, ef svo illa fer að það takist ekki eins og við öll óskum og vonum, þá sé í þeim ákvæðum það hald að hér verði ekki að þessu sjö ára tímabili liðnu lagðar svo miklar greiðslur á þjóðarbúið að það standi ekki undir því. En það er auðvitað eitthvað sem við með málefnalegum hætti, þingmenn úr öllum flokkum, þurfum að kynna okkur vel og rannsaka vel þegar málið verður flutt í þinginu. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að halda þessari umræðu lifandi þangað til.