137. löggjafarþing — 25. fundur,  26. júní 2009.

stöðugleikasáttmáli -- Icesave -- heilsutengd ferðaþjónusta -- raforkuverð til garðyrkjubænda.

[13:45]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Afstaða okkar er sú sem kom fram í máli hv. þm. Magnúsar Orra Schrams hérna fyrr í vikunni og í greinaskrifum hans um þessi mál í blöðum.

Ég hef ekki skilið hæstv. heilbrigðisráðherra öðruvísi en svo að hann sé að skoða málið af mikilli kostgæfni. Hann hefur ekki með neinum hætti lokað á þessa hugmynd. Hann hefur hins vegar sagt að einmitt núna sé verið að endurskoða heilbrigðiskerfið í heild sinni og vill ekki lofa upp í ermina á sér einhverjum efndum hvað þetta varðar fyrr en það er tóm og tími til að skoða málið. Mestu skiptir að með þessum hætti mundi nýting á þeim fjárfestingum sem til eru staðar verða meiri. Það yrði alls ekki með neinum hætti gengið á þá þjónustu sem er verið að veita suður frá. Þessi rekstur yrði til þess að styrkja grunnþjónustuna sem heilbrigðisstofnunin veitir þar og að sjálfsögðu er um að ræða tímabundinn samning um þetta.

Heilsutengd ferðaþjónusta sem hluti af stofnunum heilbrigðisþjónustunnar er vaxtarsproti sem er verið að skoða í samfélagi okkar og atvinnulífi. Þetta sérstaka dæmi er til skoðunar hjá hæstv. heilbrigðisráðherra og hann hefur tekið því máli prýðilega eins og kunnugt er, hann hefur sagst ætla að svara því síðar í sumar. En það skiptir mestu máli að ekki er með neinum hætti verið að skerða almenna lögbundna þjónustu við íbúana á svæðinu heldur er hugmyndin að nýta þarna fjárfestingar sem annars standa auðar, það er ekki verið að teppa pláss fyrir þá sem á því þurfa að halda annars staðar. Ég held að málið sé í ágætum farvegi. (Gripið fram í.)