137. löggjafarþing — 25. fundur,  26. júní 2009.

stöðugleikasáttmáli -- Icesave -- heilsutengd ferðaþjónusta -- raforkuverð til garðyrkjubænda.

[14:01]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Þingmaðurinn gleymdi einu, þetta er líka bisness, spurning um (Gripið fram í.) bisness og hvort þingmenn ætla að reka mál bisnessfyrirtækja hér gagnvart almannaþjónustunni. (Gripið fram í: … hætta …) Það er sérstaklega ánægjulegt að ræða málefni Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Það er ánægjulegt vegna þess að þar hefur tekist mjög vel til með reksturinn. Þar er sitthvað að finna sem ætti að vera fyrirmynd í landinu öllu (Gripið fram í.) og ég nefni þar sérstaklega samspil og samvinnu á milli sjúkrahússins og heimaþjónustu. Þarna hefur tekist vel til.

Það er líka ánægjulegt að ræða í tengslum við þessa heilbrigðisstofnun hve mikils stuðnings hún nýtur í samfélaginu. Þegar við fórum í það verk fyrr á þessu ári að færa útgjöldin niður komu þar að hollvinasamtök sjúkrahússins, Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. (Gripið fram í.) Í sameiningu tókst stjórnendum, starfsmönnum og hollvinasamtökunum að færa útgjöldin niður um 132 millj. kr. Þetta er mikið afrek þegar haft er í huga að útgjöldin eru að uppistöðu til laun og störf. (Gripið fram í.) Það tókst að verja störfin, það tókst að verja kjörin en í sameiningu tókst vel upp.

Ég átti fund með þessum aðilum í gærmorgun. Þau og hollvinasamtökin vöruðu við því að við hleyptum einkabisness inn eftir sjúkragöngunum á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Það var sagt og ég tók undir það sjónarmið og lagði á það áherslu: Við skulum ekki loka neinum dyrum en við skipuleggjum þessa heilbrigðisstofnun eins og heilbrigðiskerfið allt, með almannahag að leiðarljósi.

Það er furðulegt að heyra og hlusta á fulltrúa Sjálfstæðisflokksins reka málefni einkabisness eins og hv. þingmaður hefur gert. (Gripið fram í.) Þetta er bara rugl.