137. löggjafarþing — 25. fundur,  26. júní 2009.

stöðugleikasáttmáli -- Icesave -- heilsutengd ferðaþjónusta -- raforkuverð til garðyrkjubænda.

[14:04]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að taka sérstaklega undir þá umræðu sem hér hefur átt sér stað um gerð stöðugleikasáttmálans í gær, hann markar mikil tímamót í þeirri stöðu sem uppi er í íslensku þjóðlífi í dag. Hann skapar umgjörð til endurreisnar á íslensku efnahagslífi með mjög margvíslegum hætti.

Í fyrsta lagi tryggir hann frið á vinnumarkaði sem má segja að allt annað hangi utan á. Hann tryggir að stjórnvöldum er að takast að ná breiðri samstöðu um áætlun við endurreisn á efnahagslífinu. Þess vegna lögðu hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra svona gríðarlega mikla vinnu í að ná öllum þessum aðilum saman að einu borði og sú sáttargjörð tókst með mjög afgerandi, og líkast til sögulegum, hætti í gær. Ég trúi því að næstu ár muni leiða í ljós að þar hafi orðið viðsnúningur í þeirri vinnu allri sem núna stendur yfir á Íslandi um að endurreisa efnahagslífið okkar og þessi samningur sé grunnur að því að hér verði um að ræða margvíslegar framfarir, og að þessum erfiðu verkefnum er unnið í sátt, nákvæmlega eins og kom fram áðan, ekki með því að beita einhliða skattahækkunum eða niðurskurði heldur með því fyrst og fremst að afla aukinna tekna fyrir ríkissjóð. Þar má nefna vinnu sem er hafin og af fullum krafti við byggingu álvers í Helguvík og gagnaver á Vallarheiðinni sem er núna hafið af fullum krafti. Mörg önnur verkefni mætti nefna sem er vísað til í stöðugleikasáttmálanum um að ríkisvaldið muni gera hvaðeina sem í þess valdi stendur til að styðja við þá verkefnauppbyggingu. Þess vegna skiptir þessi sáttmáli svona gríðarlega miklu máli. Hann skapar umgjörð, frið og samstöðu til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.