137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[15:56]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þá hefur hv. þm. og hagfræðingur Tryggvi Þór Herbertsson talað. Hann fór mikinn um miklar skattahækkanir ríkisstjórnarinnar en fjallaði minna um niðurskurðinn.

Mig langar að beina einni lítilli spurningu til hv. þingmanns. Þegar efnahags- og skattanefnd tók þetta mál til umfjöllunar vísaði hún því til fleiri nefnda, m.a. til félags- og tryggingamálanefndar. Minni hlutinn skilaði þar ekki minnihlutaáliti og stóð ekki að meirihlutaáliti. Hann kom inn á það í máli sínu hér, sem við erum sammála um, að verið væri að skera niður til að mynda hjá öryrkjum og ellilífeyrisþegum. Mig langaði að spyrja hann að því hver hans sýn er á það.

Eins þegar þú talar um rekstrarkostnað og að ná niður rekstrarkostnaði, er rekstrarkostnaður í félags- og tryggingamálaráðuneytinu sá rekstrarkostnaður sem hv. þingmaður vill ganga inn í? Vill hann ganga inn í þjónustu við fatlaða sem er stærsti hluti af rekstrarkostnaði félags- og tryggingamálaráðuneytisins? Mig langar að spyrja hann að því hvort hann trúi því virkilega að niðurskurður með þessum hætti bitni á þeim sem minnst mega sín í þessu samfélagi, ég vil fá það hreint út frá hagfræðingnum hvort það er sú leið sem hann vill fara.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill áminna hv. þingmann um að beina orðum sínum til hæstv. forseta og ávarpa þingmenn með viðeigandi hætti.)