137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[16:00]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og skattn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Hv. þingmaður ætlar mér mikið. Ég er ekki viss um að hv. þingmaður viti alveg hvað gengur á í hugskoti mínu. (ÁsmD: Guði sé lof.) Það sem meira er, hv. þingmaður veit það kannski ekki en mér er fullkunnugt um hvernig þessi kerfi öllsömul byggjast upp. Ég var til dæmis yfir einni stærstu úttekt sem hefur verið gerð á þessu kerfi og veit alveg nákvæmlega hvernig það er upp byggt. Á þeirri reynslu minni byggi ég þær skoðanir mínar að við eigum ekki að ráðast að fötluðum, öryrkjum og gamalmennum eins og jafnaðarmannaflokkarnir vilja gera. Það er á því sem ég byggi þá skoðun mína, auk þess, eins og ég sagði áðan, að hafa einhvers konar sammannlega kennd með því fólki. Það er bara svo einfalt.

Ég vil fara aðrar leiðir. Við sjálfstæðismenn höfum bent á leiðir, hvernig væri hægt að komast út úr þessum hrikalegu kringumstæðum sem við erum í. Það er eitt sem ég ætla að gera hv. þingmanni algjörlega ljóst. Það er að ég geri mér fullkomlega grein fyrir því hvert ástandið er og ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að það þarf að gera eitthvað í hlutunum. En þú skalt ekki gera þér neinar vonir um það að ég vilji gera það með því að ráðast að öryrkjum, gamalmennum og fötluðum eins og jafnaðarmannaflokkarnir vilja gera.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill áminna þingmann og þingmenn enn og aftur um að ávarpa forseta en ekki hverjir aðra beint.)