137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[16:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið.

Það er grundvallaratriði fyrir verðmætasköpun í landinu og til að koma hagþróun í jákvæða átt að skapa Íslandi lánstraust á alþjóðamörkuðum og að skapa hér vaxtarskilyrði í landinu sem atvinnulífið getur búið við. Til þess að það megi takast þarf að taka af festu á ríkisfjármálum, skera niður rekstrarkostnað, draga úr millifærslum og leggja á nýja skatta. (TÞH: Vanhugsað.) Það er dapurlegt að Sjálfstæðisflokknum fallist hugur við að taka þó ekki sé nema þennan áfanga í því verkefni, því að hér eru út af fyrir sig ekki undir aðgerðir upp á nema 20 milljarða af þeim nærfellt 200 milljarða aðgerðum sem við þurfum að ráðast í. Mér óar nokkuð við því ef það er fyrir fram afstaða stjórnarandstöðunnar að jafnvel þær aðgerðir sem hér eru undir séu of miklar til að í verði ráðist (Forseti hringir.) vegna þess að ég fullyrði, virðulegur forseti, að það lýsi miklu óraunsæi um stöðu Íslands í heiminum í dag.