137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[16:49]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum sammála um að það þarf að koma hagkerfinu aftur í gang. En við hæstv. ráðherra erum kannski ekki sammála um hverjar séu bestu leiðirnar til þess.

Hér voru tiltekin nokkur stórmál eins og Icesave-samningarnir og Evrópusambandið. Ég get bætt við í þennan sarp. Ég get talað um fyrningarleiðina og ég get talað um orkufrekan iðnað og stóriðju. Þetta eru fjögur stórmál og ríkisstjórnin er ósammála um þau öll. Í þeim öllum er ríkisstjórnin ósammála. Það er engin eining um fyrningarleiðina enda sýnist mér að hún sé komin á ís og það endanlega staðfest með stöðugleikasáttmálanum. Það er engin samstaða í þessari ríkisstjórn um Evrópusambandið, þvert á móti. Annar flokkurinn vill inn og hinn vill vera úti. Það er engin samstaða um stóriðjustefnuna og það er engin samstaða um Icesave.