137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[16:50]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ánægð með að heyra að Sjálfstæðisflokkurinn og stjórnarandstaðan fagni stöðugleikasáttmálanum. Staðan er sú nú að ég held að við gerum okkur öll grein fyrir því, eða ættum að gera það, að þjóðin og við á hv. Alþingi stöndum frammi fyrir miklum vanda. Það er mikilvægt að við náum samkomulagi, einhvers konar samstöðu um það hvernig við ætlum að fara í gegnum þetta tímabil, niðurskurðinn og þá stöðu sem við stöndum frammi fyrir núna og allra næstu árin. Stöðugleikasáttmálinn er þarna undirstaða að því og undirstaða þess að ná einhvers konar samkomulagi hér á þinginu líka.

Hvað varðar lífeyrissjóðsgreiðslur og greiðslur úr almannatryggingum sem hv. þingmaður vék hér að og þær upphæðir sem hafa farið til lífeyrisgreiðslna á síðustu tíu árum þá eru þær réttar. En þess má líka geta að þegar við berum saman greiðslur, launagreiðslur og greiðslur til lífeyrisþega þá drógust lífeyrisgreiðslur aftur úr launagreiðslum og kjör lífeyrisþega höfðu versnað á undanförnum árum. Það má segja að við lok ársins 2008 hafi nokkurs konar jafnvægi verið náð, sem sé að kjör lífeyrisþega hafi náð sambærilegum hækkunum og höfðu þá orðið á launamarkaðnum. Því miður hefur komið til skerðinga aftur og það er nokkuð sem ég hefði aldrei viljað sjá, þ.e. að gengið yrði á kjör lífeyrisþega eins og hefur orðið að gera núna á sama tíma og við sjáum að launþegar munu fá einhverjar bætur á laun, launahækkanir, og svo aftur síðar á þessu ári þegar það kemur ekki fram í lífeyrisgreiðslum. (Forseti hringir.)

Ég vil biðja hv. þingmann um að fara aðeins betur ofan í það og segja okkur frekar frá því. Ef það á að ná að fylla þetta (Forseti hringir.) mikla gap, yfir 20 milljarða, á þeim tíma sem eftir lifir þessa árs, hvernig hann ætlar að fara frekar í niðurskurðinn en hefur verið lagt til?