137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[16:55]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ljóst að hægt er að hagræða í opinberum rekstri og það er hægt að samþætta í opinberum rekstri. Ég hvet alla þingmenn, sama hvar í flokki þeir eru að leggjast á árarnar með það að koma með tillögur um hvernig sé hægt að fara að því.

Þegar gengið er lengra, þegar verið er að skera niður þjónustu þá skulum við ekki gleyma því að velferðarþjónustan er veitt af opinberum starfsmönnum. Það eru líka störf. Velferðarþjónustan er atvinna, og atvinna sem er mikilvæg. Við verðum að fara mjög varlega í að ganga ekki svo nærri því velferðarkerfi sem við höfum byggt hérna upp að það verði ekki brotið niður til langrar framtíðar. Opinber störf eru því líka störf sem standa þarf vörð um.

Það er einkennilegt að ganga svo nærri velferðarþjónustunni að við verðum í sárum eftir til þess eins að skapa svo því sama fólki einhver önnur störf. Horfum til þess líka að það koma skattar (Forseti hringir.) í ríkissjóð af þessum störfum.