137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[16:58]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér nefndarálit um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Hv. efnahags- og skattanefnd fékk frumvarpið til umfjöllunar en hún vísaði því til umsagnar nokkurra nefnda, m.a. til fjárlaganefndar. Það er í sjálfu sér þannig að tekjuþættirnir hafa venjulega fengið umfjöllun fyrst og fremst hjá efnahags- og skattanefnd og útgjaldaliðirnir hjá fjárlaganefnd og megnið af því frumvarpi sem hér um ræðir snýst um lagabreytingar sem tengjast tekjuaukningunni. Eftir sem áður ákvað fjárlaganefnd að fjalla ítarlega um þetta mál og kallaði til sín fulltrúa allra ráðuneyta varðandi stöðu rekstrarins hjá hverju og einu ráðuneyti. Það verður að segjast eins og er og það finnst mér kannski hafa vantað örlítið inn í umræðuna í dag að það mikilvægasta sem við glímum við akkúrat á árinu 2009 er að koma á skikki á rekstrarmálin og umsýsluna hjá ríkinu.

Þetta er ekki nýr sannleikur. Hv. þm. Bjarni Benediktsson vakti athygli á þessu en þetta gleymist og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson gleymir þessu algjörlega þegar verið er að skoða sérstaklega þetta fyrsta ár í sambandi við ríkisreksturinn og menn eru að skoða að hve miklu leyti er verið að taka skatta og að hve miklu leyti er verið að skera niður í ríkisrekstrinum.

Sú regla hefur viðgengist á undanförnum árum að stofnanir og ráðuneyti hafa getað flutt með sér kostnað á milli ára. Þannig eru um 20 milljarðar, rúmlega, að vísu ekki allt saman í ónotuðum fjárheimildum, sem við getum sagt að sé í pípunum að menn geti notað til að koma sér í gegnum reksturinn á þessu ári.

Það hefur einnig viðgengist á undanförnum árum og ég fylgdist með því þegar ég sat í fjárlaganefnd frá árinu 2007 til 1. febrúar á þessu ári að það voru samin fjáraukalög sem gjarnan bættu við 20–30 milljörðum inn í reksturinn á ári hverju. Þegar áætlunin var gerð eftir hrunið, þ.e. á haustmánuðum þegar Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkur voru í ríkisstjórn, var gert samkomulag þriggja aðila; fjármálaráðuneytisins, Seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, um umgjörð í fjármálum, hvernig við ætluðum að aðlaga okkur að því breytta ástandi sem þá var komið upp. Það vekur auðvitað athygli í umræðunni og virðist hafa gleymst hjá Sjálfstæðisflokknum að það voru einmitt sjálfstæðismenn sem voru með í að gera þá áætlun. Hún gekk í aðalatriðum út á það að fjárlög í ár yrðu með 153 milljarða kr. halla og það var auðvitað ófrávíkjanleg krafa þeirra sem sömdu um hvernig ná ætti tökum á ríkisfjármálunum, að sú tala hækkaði ekki. Þegar komið var inn á árið 2009 stefndi í að það yrði frekara tekjuhrun og aukin útgjöld, einkum vegna atvinnuleysistrygginga.

Það er líka mikilvægt að þegar skoðað var hver afkoma ríkissjóðs yrði á þessu ári ákváðu menn að binda sig við greiðslugrunninn, þ.e. útgjöldin, og að staðan yrði þannig að á árinu yrði 153 milljarða halli, engu yrði bætt við þar. Til þess að ná því markmiði mætti ekki nota heimildina frá árinu áður og ekki væri hægt að gera ráð fyrir að menn gætu sótt inn í fjáraukalög á þessu ári viðbótarfjármagn nema þá að mæta því með frekari niðurskurði annars staðar.

Það er mikilvægt að taka það inn í umræðuna þegar menn tala um að hér sé lítið skorið niður að ef þetta markmið næst, að breyta þessu þannig að við stöndum við fjárlögin fyrir árið í ár án fjárauka og án þess að vera með ónotaðar heimildir frá fyrra ári, þá er um að ræða verulegan ávinning sem nemur tugum milljarða í sambandi við ríkisfjármálin. Þar er um að ræða verulegan niðurskurð líka vegna þess að við lögðum inn í árið 2009 með samdrátt upp á 45 milljarða og lögðum kvaðir á ráðuneyti og stofnanir ríkisins og raunar á fyrirtæki þess líka um að draga saman á þessu ári verulegar upphæðir. Það verður að skoða niðurstöðuna í þessu ljósi, að á þessu fyrsta ári vega skattarnir meira en niðurskurðurinn. Ég held að ef menn gæta sannmælis sjái þetta allir, jafnvel hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson.

Það er kannski vitundin um þetta og þau viðtöl sem við áttum við ráðuneytin sem er ástæða þess að mikill meiri hluti fjárlaganefndar er sammála um nefndarálit sem í meginatriðum gengur út á það að undirstrika mikilvægi þess að koma skikki á ríkisfjármálin. Nefndarálitið er ekki langt og það er aðeins einn hv. þingmaður sem skilar minnihlutaáliti, aðrir standa að þessu áliti.

Í fyrsta lagi ætlum við að standa við afkomumarkmið fjárlagaársins 2009, þ.e. binda okkur við 153 milljarða. Við undirstrikum að þetta krefst aga, aðhalds og vilja. Og hafandi talað við ráðuneytin þar sem fram kom hjá sumum þeirra að þau hefðu ekki gert sér grein fyrir að ekki mætti færa heimildir á milli ára og hefðu ætlað að mæta niðurskurðinum með því að taka af ónotuðum heimildum frá fyrra ári, á sama tíma og þau sögðu að þau ætluðu að standa við óskir fjármálaráðuneytisins og undirbúningshópsins sem vann að þessum niðurskurðartillögum upp á 20 milljarða, sögðu sömu ráðuneytin að þau ætluðu að ná niður kannski 40, 50, 60 milljónum með einhverjum aðgerðum en tilkynntu um leið að þau væru með kröfur eða óskir í fjáraukalögum upp á margfalda þá upphæð. Eftir að við vorum búin að tala við fyrstu fjögur, fimm ráðuneytin ræddum við það í gríni og alvöru í fjárlaganefnd að það væri eins gott að hætta þessum viðræðum vegna þess að þetta hækkaði alltaf við hverja heimsókn ráðuneytis vegna þess að þau ætluðu sér að nota fjárheimildina frá fyrra ári eða að þau ætluðu að bæta við fjáraukann og voru svo með litla tölu sem átti að skera niður.

Þetta er akkúrat vandinn sem við erum að glíma við. Mér finnst menn fara í kringum vandamálið og tipla á hlutunum og láta eins og ekkert sé að. Mér finnst stjórnarandstöðuflokkarnir líka hafa dottið í þessa gryfju og vera að leita að einhverjum patentlausnum, sem væri mjög smart ef við gætum komist hjá því að skera niður, komist hjá því að beita einhverjum hefðbundnum aðferðum, sækja fyrirframgreiðslu inn í lífeyrissjóðina á skattpeningum til að leysa málin. Gott og vel. Ágætishugmynd sem þarf að skoða en það er ákveðin firring í því að halda að við getum tekið þar 40 milljarða á ári og sloppið við allar aðrar aðgerðir. Ég ætla mönnum ekki að þeir hafi einlæglega þá skoðun vegna þess að hér hafa náttúrlega komið tillögur um það og auðvitað þurfum við að fara í öll þessi atriði, en mér finnst menn stundum horfa of mikið á þetta í staðinn fyrir að horfast bara í augu við það að við þurfum að skrúfa okkur aftur, skoða allt stofnanakerfið að nýju, meta hvað við höfum látið of mikla peninga í, hver eru grundvallarverkefni samfélagsins sem við verðum að vera með í samneyslunni, borga með sköttunum okkar og hverju má sleppa.

Þetta gerum við ekki á nokkrum vikum í undirbúningi að þessu frumvarpi en aftur á móti er fjallað töluvert um þetta í skýrslunni sem lögð var fram hér sem skjal fyrir áætlunina 2009–2013. Það er alveg augljóst að við verðum að vera ófeimin, og við óskum auðvitað eftir samstarfi allra þingmanna í salnum við að skoða nánast allt, að velta vöngum yfir því hvort við séum með þjónustu sem við viljum standa við. Þá skiptir ekki miklu máli hvort við erum að ræða Varnarmálastofnun, ríkisskattstjóra, nýju Sjúkratryggingastofnunina eða einhver önnur atriði. Við verðum að spyrja okkur að því að nýju: Er þetta nauðsynlegur rekstur, erum við að gera þetta á hagkvæman hátt og komumst við af með minna þannig að við náum utan um þetta verkefni? Ég held að þetta sé að mörgu leyti hollt. Og ég held að það sé rétt sem hv. þm. Bjarni Benediktsson benti á að fyrir sumu af því sem við vorum að gera, m.a. í sambandi við laun og annað, var ekki innstæða fyrir. Við vorum þátttakendur í þessari froðufærslu í samfélaginu, ríkissjóður eins og mörg fyrirtæki.

Það er annað sem hefur líka komið fram að menn hafa búið til þannig umhverfi í rekstrinum að það hafa orðið til mörg ohf.-fyrirtæki, það eru komin eignarhaldsfélög sem losa menn undan skattálögum, umhverfi sem við verðum líka að þora að skoða upp á nýtt. Það er fullt af fólki í samfélaginu sem kemur sér hjá því að borga skatta vegna þess umhverfis sem við bjuggum til. Það er líka rekstrarform sem sniðgengur útsvarstekjur eins og hjá sveitarfélögunum. Það skiptir mjög miklu máli að við náum þessum tekjum og fáum eðlilega skattgreiðslu frá öllum í samfélaginu og búum ekki til lagaumhverfi sem kemur sumum út fyrir rammana. Það er líka boðað í þessari skýrslu og er auðvitað mikilvægt í framhaldinu að þær aðgerðir sem við erum að grípa til nái einmitt til stofnana sem eru í eigu ríkisins alfarið eða að stórum hluta, hvort sem það eru bankarnir, Flugstoðir, Keflavíkurflugvöllur hf. eða Landsvirkjun, aðgerðir sem eru m.a. til jöfnuðar þar sem við reynum að taka niður ofurlaun eða laun sem eru algjörlega úr takti við veruleikann í dag og breyta þessu. Það þarf lagabreytingar til í mörgum tilfellum og þá geta menn ekki kveinkað sér undan því þó að sett séu lög eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir gerði hér áðan. Það hefur þurft að grípa til þess að gefa leiðbeinandi fyrirmæli til kjararáðs vegna þess að kjararáð hefur eingöngu farið að fyrirmælum um að taka mið af markaðsaðstæðum á hverjum tíma í sambandi við laun.

Í nefndarálitinu er þetta undirstrikað, agi, aðhald og vilji og síðan að ónýttar fjárheimildir verði ekki notaðar, en síðast en ekki síst er lögð mikil áhersla á það — og það er ekki nýtt markmið hjá núverandi fjárlaganefnd, það hefur verið markmið undanfarin ár og mikilvægt að því verði framfylgt — að breyta undirbúningi og framkvæmd fjárlaga. Við fengum m.a. leiðbeinandi plagg þar sem óskað var eftir þessu af fyrrverandi ráðherra Árna M. Mathiesen og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom með tillögur um hvernig bæta mætti fjárlagaferlið. Það fór að miklu leyti saman við tillögur sem höfðu komið frá OECD einhverjum árum áður og tillögur sem starfsmenn nefndasviðs og fleiri hafa komið með einmitt um hvernig breyta megi umhverfi í fjárlagagerðinni.

Ég held að við þurfum að skoða þessar tillögur mjög vel og það er þegar komin af stað vinna á vegum fjárlaganefndar þar sem beðið er um að Ríkisendurskoðun, fjármálaráðuneytið og fjárlaganefnd fjalli um það hvernig hægt sé að hafa þetta með skilvirkari hætti, bæði hvað varðar undirbúninginn og eftirlitið. Mikilvægasta breytingin í undirbúningnum er sú að Alþingi setji rammana fyrir ríkisstjórnina um hvaða svigrúm ríkisstjórnin hafi við fjárlagagerðina, það verði fyrsti áfanginn. Síðan fái ríkisstjórnin tækifæri til að gera sín fjárlög, komi með þau inn í þingið að hausti og þá geti Alþingi bæði haft eftirlit með því að framkvæmdarvaldið hafi unnið innan þess ramma sem Alþingi setti. Auðvitað hefur Alþingi síðasta orðið um fjárlagagerðina í heild og mun svo ásamt fleiri aðilum hafa eftirlit með framkvæmdinni, að menn hafi staðið við þau markmið sem þar voru sett.

Þetta er meginniðurstaðan í því nefndaráliti sem fjárlaganefnd skilar sem er fyrst og fremst hvatning til að standa vel á bremsunni, fylgja vel eftir hlutum sem hafa farið úrskeiðis hjá einstökum stofnunum eða ráðuneytum og reyna að koma skikki á hlutina. Við höfum heyrt um það ítrekað að ákveðnar stofnanir, ákveðnir skólar hafi reglulega farið fram úr fjárlögum. Það eru komnir tilsjónarmenn fyrir ákveðnar stofnanir og ég tel að það sé af hinu góða. Ég held að það sé afar mikilvægt að í staðinn fyrir að togast á um það hvort viðkomandi stofnun sé illa rekin eða ekki eða þegar stofnun tilkynnir að ef hún eigi að fara að lögum og standast kröfur sem gerðar eru til hennar sé ekki hægt að reka hana á hagkvæmari hátt, þá séu kallaðir til utanaðkomandi aðilar eða aðili frá ráðuneytunum sem fari skipulega yfir þetta og stilli rekstrinum upp að nýju. Við búum við skuldir frá fyrri árum sem hafa verið að sullast í kerfinu, sem aldrei hefur verið tekið á eða verið viðurkenndar og gerðar upp og þess vegna koma þessar stofnanir ár eftir ár eftir inn í fjárlögin með hallarekstur af því að þeim er alltaf ætlað að mæta halla fyrri ára á fjárlögum viðkomandi árs. Þetta er hluti af þeirri tiltekt sem þarf að eiga sér stað við fjárlagagerðina núna og í nýrri uppstillingu á kerfinu.

Það vekur furðu mína í umræðunni hér að það skuli endalaust koma sömu gömlu frasarnir um að hækkun á sköttum sé af hinu illa óháð því hvaða skattar eru lagðir á. Og það vekur enn þá meiri furðu mína að þetta skuli koma núna í framhaldi af stöðugleikasáttmálanum vegna þess að eins og hér hefur komið ítrekað fram í umræðunni spiluðu atvinnurekendur því út strax í upphafi að þeir mundu taka á sig hækkun á tryggingagjaldi til Atvinnuleysistryggingasjóðs, þeir teldu það vera eðlilegt, en þeir gerðu það örugglega í trausti þess að þeir fengju þá frið með aðra hluti, m.a. launahækkanir og annað slíkt. Þetta er hluti af heilum pakka sem þeir stilltu upp, þeir samþykkja. Það getur vel verið að einhverjir hv. þingmenn séu þess umkomnir að tala niður til þeirra aðila sem sátu við þetta borð og segja að þeir hafi ekki hundsvit á þessu. Ég er ekki í þeirri stöðu jafnvel þó að ég geti ekki kallað mig hagfræðing með þá menntun sem ég er með. (TÞH: Málið er að …)

Þegar menn hafa verið að slást um hversu mikið eigi að taka í sköttum og hversu mikið eigi að taka niður í niðurskurði, þegar menn voru komnir í þá umræðu á tímabili að það mætti helst ekkert hækka skatta eftir 2010, á næsta ári, og þeir ættu að vera jafnvel allt niður í 30% af þeirri veltu sem við þurfum að ná niður af þessum 170–200 milljörðum, það ætti að vera innan við 30% sem væri í sköttum — það mátti helst ekki taka af öldruðum og öryrkjum eins og hér hefur komið fram og við getum heils hugar tekið undir að væri æskilegt að hlífa þeim hópum, og það er ekki mikið af framkvæmdum að taka, við erum að byrja með 20–30 milljarða og ef við skerum það niður í ár og svo á næsta ári líka verður ekki mikið eftir þar— þá eru menn að tala um að taka 80 milljarða af 200 milljörðum úr rekstri. Og þó að maður heiti Tryggvi Herbertsson þá skuldar hann okkur það að segja hvaða áhrif það muni hafa á veltuna í samfélaginu ef þriðjungi opinberra starfsmanna yrði sagt upp jafnvel þó að það mætti skilja á hv. þingmanni sem talaði áðan, Bjarna Benediktssyni, að þeir geri minnst gagn af því að þeir skapi ekki verðmæti, sem er líka misreikningur á útreikningi í þjóðhagsspám og öðru slíku, auðvitað skapa þjónustustörfin líka veltu í samfélaginu.

Ég ætla samt að taka undir það að auðvitað er mikilvægasta forsendan ef við komumst út úr þessum vanda að við getum ráðið við að halda atvinnulífinu gangandi og verðmætasköpuninni, þ.e. í gegnum sjávarútveg, landbúnað og grundvallarframleiðsluna í landinu. Ég ætla ekkert að gera lítið úr því og ég held að við eigum sameiginlega að taka undir þær tillögur sem hér komu fram og eru raunar í samræmi við það sem ríkisstjórnin hefur sett inn í sínum leiðarljósum, þ.e. að verja þá sjóði sem styðja við atvinnulífið. Ég tek heils hugar undir að mér finnst full ástæða til að skoða það hvort hægt er að búa til einhverja hvata fyrir fyrirtæki sem eru í atvinnulífinu og berjast í bökkum í dag til að þau geti fengið súrefni til að geta rekið sig betur og fengið hjálp þar. Ég held að menn eigi ekkert að vera feimnir við að skoða slíka hluti, hvort sem það er bundið við einhverjar ákveðnar atvinnugreinar eða ákveðin svæði, og að reyna að kasta fram slíkum hugmyndum.

Auðvitað er það þannig, þó að ég hafi kannski talað pínulítið niður til þeirra hugmynda sem sjálfstæðismenn komu með um fyrirframsköttun á lífeyrissjóðunum, og það er kannski vegna þess að þeir sem voru að vinna saman í Karphúsinu afgreiddu þetta bratt út af borðinu, þá tel ég að það sé mjög mikilvægt að skoða svona hugmyndir og ég held að það sé engin ástæða til þess að hlífa sér við því. Við erum ekki búin að missa af lestinni í því þó að það komi ekki fyrr en á næsta ári eða þarnæsta ári að við grípum til slíkra aðgerða ef það er skynsamlegt. (Gripið fram í.) Það er ekkert vandamál í sjálfu sér að framkvæma þetta seinna en á sama tíma getum við þá ekki reiknað með því að lífeyrissjóðirnir verði aðallánveitendur til sveitarfélaga eða helstu aðilar í sambandi við það að efla framkvæmdir í landinu, því að ef við skerðum innkomuna um þriðjung skerðast auðvitað möguleikar þeirra til að vera stórvirkir aðilar í atvinnulífinu.

Í lokin vil ég segja að verkefnið er stórt. Það þýðir ekkert að tala í fyrirsögnum um að við ætlum að sleppa einhverju þegar við erum að reyna að hagræða eða skattleggja, við verðum að grípa til fjölþættra og margþættra aðgerða. Það er verkefnið sem bíður okkar, til þess þurfum við auðvitað hugmyndaauðgi þeirra sem hér hafa talað og tillögur frá bæði stjórnarandstöðu og ríkisstjórn og köllum að sjálfsögðu áfram eftir þeim tillögum. Mér finnst full ástæða til að skoða þær hverja fyrir sig og meta þær og afgreiða svo út af borðinu eða inn á borðið eftir atvikum. En ég held að menn eigi að hætta að tala í fyrirsögnum um að það sé hægt að sleppa hinu og þessu og menn séu að verja eitt fremur en annað. Það er afskaplega hjákátlegt eftir að hafa verið eitt og hálft ár eða raunar tvö ár í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum þegar sá flokkur er allt í einu orðinn aðalhagsmunaaðili aldraðra og öryrkja. Ég veit að hv. þm. Pétur H. Blöndal er búinn að óska eftir að veita andsvar og ég hef þurft að hlusta á það ítrekað að í hvert skipti sem við vorum að komast yfir 150 þúsundin í einhverjum tryggingum þá talaði hann um oftryggingar og ofgreiðslur. Og ef við einmitt tökum það sem hv. þm. Bjarni Benediktsson benti að það hefði orðið veruleg hækkun á almannatryggingum þá hefði hv. þingmaður þurft að benda á hvenær sú hækkun varð mest. Hún varð einmitt á árunum 2007 og 2008.

Við erum að draga hluta af því til baka, því miður, það er afar sorglegt en ég ætla að vona að við getum skilað því fljótt aftur. Mikilvægast er þó að endurskoða almannatryggingakerfið, koma á miklu réttlátara kerfi, kerfi sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur mikið talað fyrir í sambandi við það að auka virkni úti á vinnumarkaðnum og auka frumkvæði, snúa örorkumatinu þannig við að metin sé starfsgeta en ekki vangeta. Allt þetta þarf að vera uppi á borðinu í endurskoðun okkur á hinu nýja Íslandi þar sem við erum að reyna að gera hlutina með nýjum og betri hætti en hingað til.