137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[17:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hann sagði að það væri mikilvægt að fyrirtækin fengju núna súrefni og ég ætla að spyrja hann hvort það sé gott súrefni fyrir fyrirtæki sem eru í vandræðum að fá á sig að meðaltali 7.000 kr. skatt á hvern launþega á mánuði. Kannski er núna akkúrat sú staða að það þurfi að fara að segja upp fólki. Telur hv. þingmaður að 7.000 kr. aukaskattur á mánuði á meðalmann hjálpi þeim til þess að halda í fólkið?

Hér er gert ráð fyrir því að atvinnuleysistryggingagjaldið gefi 7 milljarða í plús. Er hv. þingmanni kunnugt um það í fjárlaganefnd að útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs verði 10 milljörðum meiri en gert er ráð fyrir í fjárlögum? Kemur það einhvers staðar fram í þessu frumvarpi að menn séu í rauninni komnir 7 milljarða í plús en á sama tíma séu 10 milljarðar í mínus?

Svo vildi ég spyrja hann um tónlistarhúsið, hvar þess sjái stað í þessu frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Nú er sagt að verið sé að flytja inn gler frá Kína fyrir dýran gjaldeyri, það sé verið að flytja inn kínverska verkamenn á meðan Íslendingar ganga atvinnulausir, vegna sérhæfingar þeirra í því að reisa þennan ágæta glerhjúp. Fyrir þá verkamenn, sem eru eflaust mjög færir á sínu sviði, þurfum við að borga dýran júan, gjaldeyri, og ég spyr hv. þingmann, sem er formaður fjárlaganefndar, hvernig hann sjái þetta allt ganga upp.