137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[17:20]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í rauninni er síðasta spurningin einmitt sú mikilvægasta, þ.e. þegar hv. þingmaður spyr: Hvernig sjáum við þetta ganga upp? Ég held að það sé rétt sem hv. þm. Bjarni Benediktsson benti á, ég held að ekkert okkar hér á Alþingi viti nákvæmlega hvernig þetta gengur upp. Það krefst þess að við þurfum að bregðast við sífellt og aftur. Sumir telja sig vita meira en aðrir, það er svo önnur umræða.

Það sem hv. þm. Pétur Blöndal spyr um er: Er það súrefni fyrir atvinnulífið að skattleggja það? Ég held að það sé rétt hjá honum að það er í sjálfu sér ekki það æskilegasta, það hefði verið betra núna að vera að lækka skatta en eins og ég hef ítrekað bent á í þinginu búum við við það að nákvæmlega þegar mest gekk á í samfélaginu, þegar góðærið var, þegar þenslan var, lækkuðum við skattana á fyrirtækjunum, þá lækkuðum við skattana á einstaklingunum, þá minnkuðum við bindiskylduna, þá jukum við lánin og opinberu framkvæmdirnar — allt aðgerðir sem okkur vantar núna. Því miður getum við ekki notað þær núna.

Ég ætla ekki að bera einn ábyrgð á því, og allra síst á tímanum fyrir 2007 áður en ég kom inn í þingið. Þeir sem voru á þeim tíma verða að svara því hvernig stóð á að þetta var gert þannig. Ég geri mér fulla grein fyrir því að álagningin á tryggingagjaldið dugir væntanlega ekki, það er að vísu ekki búið að staðfesta neinar tölur um niðurstöðuna fyrir Atvinnuleysistryggingasjóðinn í ár, en það er líka hugsað þannig að þetta gjald verði aðeins áfram á meðan sjóðurinn verður að byggja sig þá aftur upp ef atvinnuleysið fer niður, eins og við treystum á og vonum, þannig að sjóðurinn standi undir sér, hugsanlega með einhverjum lántökum tímabundið á meðan verið er að brúa bilið.

Varðandi tónlistarhúsið er það í sérstöku félagi og hefur ekki komið inn til þingsins síðan ég svaraði hv. þingmanni síðast um það mál. Við höfum ákveðið að taka það sérstaklega upp hjá fjárlaganefndinni en það hefur ekki verið gert enn þá. Þær framkvæmdir eru áfram í gangi að mér skilst án þess að ríkið sé beinn aðili að því. Aftur á móti er þar í gangi eldri samningur um að ríkið greiði allt að 435 millj. kr. (Forseti hringir.) á ári í rekstur á því húsi en er ekki aðili við uppbyggingu á því formlega, ef ég veit rétt.