137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[17:24]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við höfum heyrt þessa ræðu áður frá hv. þm. Pétri H. Blöndal, að þetta snúist eingöngu um að auka atvinnu og þar með aukist allar tekjurnar. Ég held að þetta sé í aðalatriðum rétt. Þetta er samt svipað og þegar maður er kominn í þrot í skuldunum sínum og segir að maður eigi bara að bæta við sig vinnu, það sé engin ástæða til að vera að laga neitt til, breyta neinu í lánasafninu, hagræða eða skipuleggja sig upp á nýtt, við bara bætum við okkur vinnu.

Málið er nefnilega ekki svona einfalt.

Ég veit ekki betur en að það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi sé allt saman inni í stöðugleikasáttmálanum sem var undirskrifaður í gær. Það er engin fyrirstaða af hálfu ríkisvaldsins varðandi Helguvík eða nýjar virkjanir eins og Búðarhálsvirkjun þar sem það liggur fyrir. Það sem stendur á hefur verið lánafyrirgreiðslan og þar er t.d. verið að horfa á að lífeyrissjóðirnir reyni aðild með því að lána okkur pening í augnablikinu vegna þess að við erum meira og minna lokuð af vegna ástandsins sem hér hefur verið. Þá er mjög mikilvægt að þeir peningar fáist og það er verið að ræða það einmitt á þessum vettvangi varðandi stöðugleikasáttmálann að lífeyrissjóðirnir komi að þessum stærri framkvæmdum. Vonandi gengur það eftir.

Það er engin fyrirstaða í þessum málum í sjálfu sér, þó að menn hafi haft efasemdir um eða tjáð sig um það eins og varðandi álverið í Helguvík, að orkufyrirtækin geti afhent alla þá orku sem þarf til. Þó hefur því verið svarað hér fullnægjandi að mínu mati að það á að fara þar í fjórum áföngum ef ég veit rétt og að full orka sé til fyrir fyrstu áfangana. Það er engin fyrirstaða að því er ég best veit og við samþykktum hér fjárfestingarsamning fyrir þetta fyrirtæki á síðasta þingi.

Um þetta með framkvæmdirnar við tónlistarhúsið, að það sé ekkert samræmi í því, ætla ég svo sem ekkert að tjá mig frekar. Þar var verið að leita að atvinnu. Það eru engin rök fyrir því að halda áfram með tónlistarhúsið við núverandi aðstæður önnur en þau að halda úti atvinnu (PHB: Fyrir Kínverja?) og að (Forseti hringir.) nýta það fjármagn sem þar var búið að binda í skuldbindandi samningum sem koma til með að kosta hvort sem var. (Forseti hringir.) Við eigum auðvitað eftir að ræða það mál betur og skoða hvort það er rétt ákvörðun eður ei.