137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[17:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum ráðstafanir í ríkisfjármálum, stjórnarfrumvarp, og það er ekki hægt að neita því að það er mjög mikilvægt að taka á stöðu ríkissjóðs. Í fjárlögum var gert ráð fyrir, ef ég man rétt, 153 milljörðum í halla og það er staða sem gengur ekki upp því að þetta þarf að taka að láni og borga af þessu vexti og vextirnir munu svo auka hallann aftur á næstu árum. Þetta er eitthvað sem taka þarf á og ég held að allir séu sammála því að taka þarf á þessu og þær ráðstafanir sem við heyrum um hér eru aðgerð til að taka á þessum vanda. Það sem mér finnst skorta í öllum störfum ríkisstjórnarinnar er framtíðarsýn. Nú hefur það gerst að þessi halli er orðinn 178 milljarðar í millitíðinni og það er vegna þess að menn hafa ekki verið að taka á vandanum hingað til, þeir hafa verið að dunda sér við ýmislegt annað, eins og að reka Davíð Oddsson úr Seðlabankanum, sem ég hef svo sem nefnt áður, og koma á stjórnlagaþingi til að þóknast einhverjum, síðan að sækja um aðild að Evrópusambandinu og svo kemur náttúrlega sprengjan um Icesave. Allt þetta er eins og til þess gert að taka ekki á vandanum. Á meðan hefur hallinn vaxið um 25 milljarða að mér sýnist og verður alltaf verri og verri.

Mér finnst vanta framtíðarsýn. Mér finnst vanta að menn segi hvernig dagurinn 25. júní árið 2014 verður, bara til að nefna dæmi, eða árið 2024 þegar Icesave-samningurinn rennur út. Hvernig lítur sá dagur úr? Hann kemur, það er nokkuð öruggt, það er nokkuð víst. Tíminn heldur áfram. Ég vil að menn sjái þetta, að menn séu búnir að gera áætlanir fram í tímann fyrir ríkissjóð og búnir að gera áhættugreiningu á t.d. hvernig Icesave virkar í versta tilfelli, besta tilfelli og meðaltilfelli, búnir að vinna þetta skynsamlega. Þá getur maður farið að vinda sér í að vinna úr þessu. En á meðan engin framtíðarsýn er og enginn segir mér hvernig þetta lítur út, menn taka stundum ákvörðun um að halda áfram með tónlistarhús eða hætta við aðgerðir í heilbrigðiskerfinu og gera eitthvað annað, þá er þetta svo flausturskennt, frú forseti.

Mér finnst mikilvægt núna að auka atvinnu, ég nefndi það áðan, og það þarf að koma bönkunum í gang til þess að auka atvinnu. Bankarnir eru yfirfullir af peningum, þeir eru sneisafullir af peningum. Stýrivextir Seðlabankans eru hættir að virka vegna þess að það eru engin endurhverf lán í gangi. Vextir á millibankamarkaði eru lægri en stýrivextir þannig að það eru heilmiklar forsendur fyrir því að koma atvinnulífinu gang. En menn taka ekki á vissum hlutum eins og t.d. því að klára bankana.

Við þurfum líka að gera viðunandi samninga um Icesave til að geta horft til framtíðar. Það er ekki hægt annað, við getum ekki horft til framtíðar með eitthvað hangandi yfir okkur með ákveðnum líkum sem valda því að þjóðarbúið fari á hvolf og við þurfum að leita nauðasamninga eins og gjaldþrota fólk úti í heimi ef illa fer. Það gengur ekki upp. Við verðum að semja þannig að við getum borgað nokkuð örugglega.

Ég skrifaði undir nefndarálit sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson hefur farið nokkuð ítarlega í gegnum en mig langar til að bæta um. Það vill svo til að tekjuhluti frumvarpsins snýst um að hækka tryggingagjaldið um 1,66%, hækka fjármagnstekjuskatt úr 10% í 15% og færa ýmsar tegundir matvæla úr 7% virðisaukaskatti, þ.e. aðallega sykur og sykurvörur, í 24,5% skatt. Fyrstu tvö atriðin eru í reynd skattlagning á atvinnu, tryggingagjaldið er skattlagning á atvinnu því að það leggst á laun, það er 7 þús. kr. að meðaltali á hvern launþega á mánuði, og skattlagning á sparnað, hækkun á fjármagnstekjuskatti er ekkert annað en skattlagning á sparnað. En þó veitir ekki af að styrkja þessi tvö atriði. Atvinna hefur hrunið, við búum við atvinnuleysi sem Íslendingar hafa aldrei séð og vilja ekki sjá og ætla ekki að sjá til framtíðar. Þetta er reyndar venjan í þessu framtíðarlandi, Evrópusambandinu. Þar er reglan að atvinnuleysi sé 8–10% en Íslendingar vilja ekki sjá það og ég vil ekki sjá það. Ég vil hafa atvinnuleysið u.þ.b. 2% á ári. En hér er verið að skattleggja atvinnu og það er verið að skattleggja sparnaðinn og sparnaðurinn hrundi. Eignahrunið í haust var gífurlegt, sennilega þúsund milljarðar, og það er verið að skattleggja einmitt fjármagnið og arðinn af því sérstaklega. Mér finnst mönnum vera dálítið mislagðar hendur. Þetta er eflaust í góðu gert, ég efa það ekki, en ég hugsa að menn hafi bara ekki áttað sig á hvað þeir voru að gera með því að auka álögur á atvinnu og auka álögur á sparifjáreigendur og fjármagnið sem þó hafa orðið fyrir langmestu hnjaski sem sparifjáreigendur hafa nokkurn tíma orðið fyrir á eins stuttum tíma. Auðvitað voru neikvæðir vextir í gamla daga sem stálu sparifénu af gamla fólkinu hægt og rólega en það gerðist ekki með svona sviplegum og snöggum hætti.

Ég ætla að ræða rétt aðeins um skatta. Skattar á tekjur einstaklinga eru þrenns konar hér á landi, það eru tvenns konar flatir skattar, það er tryggingagjaldið og það er útsvarið. Allir borga tryggingagjald og allir borga útsvar alveg frá fyrstu krónu sem þeir hafa í tekjur, það er ekkert frítekjumark þar. Það vill svo til að ríkið borgar útsvarið fyrir fólk undir frítekjumarki með tekjuskattinum. Tekjuskatturinn er í reynd neikvæður á lágar tekjur og sveitarfélögin fá alltaf sitt útsvar af fyrstu krónu sem menn þéna. Þarna eru sem sagt tvenns konar skattar sem eru algerlega flatir og svo er tekjuskattur ríkisins sem ég var að lýsa áðan sem er neikvæður undir frítekjumarkinu sem nú eru 118 þús. kr. og ríkið er þá í rauninni að borga. Eins og kemur fram í töflu á bls. 4 í nefndarálitinu borgar ríkið tæpar 15 þús. kr. fyrir hvern mann þegar hann er akkúrat í frítekjumarkinu. Síðan minnkar alltaf tekjuskatturinn, þessi neikvæði, og hann endar í því að verða 0 við 182 þús. kr. Skattþegn undir 182 þús. kr. borgar ekki tekjuskatt, hann fær greitt frá ríkinu til að borga útsvarið sitt. Það er fyrst við 182 þús. kr. sem menn fara að borga tekjuskatt. Þetta kemur líka fram á mynd sem þarna er sýnd en ég dreg þetta fram til að menn átti sig á því hvernig tekjur eru skattlagðar, og tryggingagjaldið sem borgað er launagreiðendum mætti láta launþegann greiða með því að setja lög um að hækka öll laun í landinu sem nemur tryggingagjaldinu og launþeginn borgi það sjálfur. Það mundi ekki breyta neinu, ekki fyrir einn eða neinn, hvorki fyrir fyrirtækin né launþegann. En þá kæmi í ljós að hann væri í rauninni að borga tvo flata skatta, þ.e. útsvarið og tryggingagjaldið. Á töflu er sýnt hvernig þessir skattar hegða sér og þar sést líka hvernig tryggingagjaldið er hækkað með þessu. Svo er settur á sérstakur hátekjuskattur á tekjur yfir 700 þús.

Fólk lítur á tekjur sínar eftir skatt, það hefur engan áhuga á þeim hluta teknanna sem fer í skatt. Fólk lítur á hvað það fær í vasann eftir að búið er að taka því af skatta og annað slíkt og sumir líta ekki einu sinni á iðgjald í lífeyrissjóð sem sinn hluta þó að það sé í rauninni eignamyndun hjá lífeyrissjóðunum af því að tengslin milli sjóðfélaga og lífeyrissjóða eru afskaplega veik. Þökk sé mjög veiku lýðræði í lífeyrissjóðunum en ég ætla nú ekki að tala um það. Fólk lítur á ráðstöfunartekjur eftir skatt, þetta hafi það til ráðstöfunar, og launagreiðandinn lítur á kostnað sinn fyrir skatt. Og það sem ríkið tekur þarna á milli geta menn deilt um hvort launþeginn greiði eða ríkið. Ég hugsa að þessa hækkun á tryggingagjaldi munu flestir líta á sem kostnað fyrirtækjanna en hann er um 7 þús. kr. á hvern meðal Íslending þar sem meðallaunin eru í kringum 400 þús.

Annað sem er athyglisvert líka er að 10% lækkun á skatti þýðir um leið 10% lækkun á tryggingagjaldi og útsvari af því að það er línulegt hvort tveggja en slík lækkun þýðir 18% lækkun á tekjuskatti vegna þess hvernig hann er uppbyggður. Ríkissjóður er því afskaplega viðkvæmur fyrir bæði launahækkunum og launalækkunum og hann verður sérstaklega mikið var við þær launalækkanir sem eru í gangi í dag og ætti í rauninni að hafa hag af því að reyna að hemja þær eins og hægt er, t.d. með því að auka atvinnu í landinu. Aukin atvinna þýðir aukin eftirspurn eftir vinnuafli og þá hækka launin og fleiri borga skatt og þá ætti ríkissjóður að hagnast. Þetta var um hinar þrjár tegundir skatta á tekjur einstaklinga.

Í ákvæði til bráðabirgða er verið að hækka hátekjuskattinn. Þar fóru menn þá leið, sem mér finnst vera afskaplega ósanngjörn og ófélagsleg og dálítið merkilegt að vinstri menn skuli fara þá leið, að skattleggja einstaklinginn í sambúð. Þetta er náttúrlega í takt við þá einstaklingshyggju sem hefur grafið um sig í þjóðfélaginu síðustu fimm, sex árin og valdið gífurlegum kostnaði í velferðarkerfinu og kom í kjölfar öryrkjadómsins. Það er einstaklingshyggja að líta ekki á félagslega stöðu fólks heldur segja bara að einstaklingur eigi rétt á þessu þó að hann búi með maka sem bæði á miklar eignir og hefur miklar tekjur. Það er náttúrlega alveg sérstakt að allt velferðarkerfið taki ekki mið af eignum manna. Maður sem á mjög miklar eignir getur fengið bætur úr velferðarkerfinu eins og ekkert sé. Hér er gert ráð fyrir því, í takt við þessa einstaklingshyggju, að fólk borgi hátekjuskatt af launatekjum sem eru yfir 700 þús. hjá einstaklingi. Nú getur verið að hjón séu með mikla ómegð og annað þeirra sé yfir barnahjörðinni og hitt verði að hafa mjög miklar tekjur, t.d. sem sjómaður eða sem mjög virkur og duglegur maður sem vinnur mikla yfirvinnu, það er þekkt hér á landi. Ef annað þeirra er með, hvað á ég að segja, milljón á mánuði en hitt með 100 þús. kr. á mánuði, eitthvað eilítið fyrir að halda bókhald eða eitthvað slíkt, þá borgar það þeirra sem er með milljón á mánuði töluvert góðan, safaríkan hátekjuskatt þó að meðaltekjurnar séu ekkert voðalega beysnar, 550 þús. Þetta frumvarp er því mjög ósanngjarnt og ég legg til — af því að ég sé að hv. formaður efnahags- og skattanefndar er viðstaddur — að við breytum þessu í nefndinni milli 2. og 3. umr. þannig að þetta verði félagslegra og þetta verði jafnað á milli hjóna í þeim tilvikum sem um það er að ræða.

Þá er það spurningin um skatta á fjármagnstekjur og ég verð að minna á það, af hverju er skattur á fjármagnstekjur 10% og meðalskattur á tekjur um 23% ef maður tekur persónuafsláttinn og allt inn. Það er vegna þess að hluti af fjármagnstekjum, t.d. vextir, eru verðbætur. Núna hefur það gerst t.d. í vetur að verðbólga hefur verið 18% og maður sem er með 15% vexti tapar, hann nær því ekki að kaupa jafnmikið eftir árið og hann gat keypt ári áður en hann borgar 1,5% í skatt af tapinu. Fjármagnstekjuskatturinn var ákveðinn svona miklu lægri vegna þessara tilvika, vegna þess að menn eru að borga skatt á verðbótaþátt sem er ekki tekjur, sem er froða. Sömuleiðis þeir sem hafa arð og söluhagnað, þá var ákveðið að hafa skattinn miklu lægri vegna þeirrar áhættu sem menn tóku. Reyndar skildi enginn áhættuna þá en ég ætla að vona að menn skilji það í dag. Menn sem fengu arð af hlutabréfum í Kaupþingi í fyrra og borguðu af honum fjármagnstekjuskatt, það er ekki mikill arður af þeirri fjárfestingu í dag, gífurlegt tap og þeir geta ekki dregið það frá skatti. Ef menn ætla að vera sanngjarnir þyrftu menn — já, ég ætla að tala um húsaleiguna áður en ég fer að tala um sanngirnina. Í húsaleigunni geta menn ekki dregið frá gjöld og skatta á húsnæði, afskriftir, viðhald og annað slíkt. Þetta er brúttóskattur og þar af leiðandi var hann ákveðinn helmingi lægri en af venjulegum tekjum vegna þess að verið er að borga 10% skatt af tekjum sem fara í að borga viðhald og annað slíkt sem er ekki tekjur. Þetta voru rökin fyrir því að fjármagnstekjuskatturinn er 10% en ekki eins og laun, 35% af tekjum umfram frítekjumark eða eitthvað slíkt. Ef menn ætla að vera sanngjarnir og vilja fara að líta á þetta sem tekjur þyrfti í fyrsta lagi að taka raunvexti en ekki nafnvexti, menn þyrftu að taka vaxtagjöld til frádráttar, raunvaxtagjöld til frádráttar, að sjálfsögðu, menn þyrftu að taka áhættuna af hlutabréfum. Ég held að margir mundu gleðjast, frú forseti, ef þeir gætu dregið tapið sitt af hlutabréfunum frá tekjum sínum fyrir álagningu skatts næstu 10–15 árin, eitthvað svoleiðis. Það mundi sennilega duga mörgum og yrði mikil ánægja með það yfirleitt í þjóðfélaginu, en þannig yrðu reglurnar að vera ef menn ætla að vera sanngjarnir. Ef menn ætla að vera algerlega sanngjarnir í skattlagningu á fjármagnstekjum yrði að heimila tap manna af hlutabréfum og í húsaleigunni mættu menn þá draga frá allan kostnað, viðhald og skattlagningu, afskriftir og annað slíkt.

Ég var í þeirri nefnd sem samdi þetta á sínum tíma og barðist fyrir því að koma með einfaldan 10% skatt sem hefur reynst alveg frábærlega vel. Það var reiknað út að ef menn færu þessa sanngjörnu leið yrðu tekjur ríkisins engar og hvatinn til að skulda yrði mikill vegna þess að vaxtagjöldin yrðu frádráttarbær. Hér er verið að hverfa frá þessari leið, sennilega vegna misskilnings eða vegna þess að menn skilja ekki eðli fjármagnstekna. Hér á að fara að hækka þetta upp í 15% og það hefur verið stöðug umræða um að skattleggja þetta eins og tekjur en þá verða menn líka að líta á þetta sem tekjur.

En það er annað. Vegna þess að á Íslandi voru vextir neikvæðir í 30 ár, frá 1950–1980, og sparifjáreigendum var refsað ár eftir ár eftir ár og þeim sem skulduðu var hyglað ár eftir ár eftir ár, þá lærði þjóðin að skulda. Hún lærði svo rækilega að skulda að hún er ekki búin að gleyma þeim lærdómi enn þá og þjóðin skuldar í dag eða fram að hruninu í haust skuldaði hún villt og galið sem er afskaplega slæmt. Það er allt of fátt fólk sem vill spara á Íslandi og allt of margir sem vilja eyða, kaupa sér fínan jeppa, fara í utanlandsferð eða eitthvað slíkt. Þannig var það þangað til í haust. Það varð reyndar mikil breyting þá þegar Íslendingurinn breyttist í homo parcus, hinn sparsama mann sem ég vona að haldi. Ég ætla að vona að það haldi einhverja mánuði eða ár að Íslendingurinn verði homo parcus því að það er nefnilega framtíðarsýnin mín að við getum bara keypt okkur gjaldeyri til að skipta um gjaldmiðil þegar við þurfum á því að halda, eftir 3–4 ár þegar við erum búin að ráða við þau vandamál sem við glímum við í dag.

Skattlagning á sparnað er einmitt til að refsa þeim sem hafa sparað og við erum að stíga það skref núna eða gefa það merki að við ætlum að refsa þeim sem hafa sparað, jafnvel eftir eitt mesta verðbólguskot undanfarinna ára sem sparifjáreigendur hafa náttúrlega tapað gífurlega á nema þeir sem áttu verðtryggða reikninga og jafnvel eftir það mikla eignahrun sem varð þar sem gífurlegt hrun varð á hlutabréfaeign almennings. Ég lét reikna það út í efnahags- og skattanefnd í haust að 45 þúsund manns töpuðu að meðaltali 3 milljónum í þessum þremur bönkum okkar sem urðu gjaldþrota og það á einni viku, 45 þúsund manns töpuðu að meðaltali 3 millj. og þar af voru 11 þúsund aldraðir, þ.e. þriðjungur aldraðra tapaði að meðaltali 3 millj. líka á þessari einu viku. Þetta er eignahrun og hér ætla menn að höggva í þann knérunn sem eru fjármagnstekjur og fjármagn. Ég held að menn þurfi aðeins að passa sig. Þó að það sé nauðsynlegt að laga stöðu ríkissjóðs finnst mér að menn eigi að gera það með því að auka atvinnu eins og hægt er, eins og ég nefndi í fyrr í dag, og gera ráðstafanir sem taka á einhverju öðru en einmitt sparnaði og atvinnu. Ég ætla ekki að nefna sykurinn og þá forsjárhyggju. Ég nefni í því sambandi af hverju menn leggi þá ekki skatt á fitu, það er allt of mikið af feitu fólki. Svo ætti náttúrlega að lækka skatt á tannkremi eða jafnvel hafa það ókeypis og hengja svo upp mynd af Steingrími í baðherberginu þar sem hann segir: Burstaðu tennurnar á kvöldin, vinurinn.