137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[18:21]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Þessi ríkisstjórn hefur nú starfað í tæplega hálft ár og mikil þreytu- og uppgjafarmerki eru á öllum hennar vinnubrögðum. Mikið samstöðuleysi er um grundvallaratriði sem snúa að uppbyggingu íslensks samfélags, grundvallaratriði er snúa að atvinnumálum, Evrópumálum, skuldbindingum erlendis gagnvart þessum Icesave-samningum og það má telja upp fleiri atriði.

Það er bagalegt að horfa upp á þær lausnir sem þessi hæstv. ríkisstjórn leggur fyrir Alþingi í dag til að gefa íslensku samfélagi aukna bjartsýni og áræðni til að takast á við þann vanda sem fram undan er. Þær lausnir sem ríkisstjórnin hefur eru bara aukin skattheimta og önnur frekari gjaldheimta og hún virðist einnig horfa mjög til þess að draga allan mátt úr atvinnulífinu. Alla vega eru henni mjög mislagðar hendur í því að koma á blað einhverjum hugmyndum sem gætu veitt bjartsýni og áræðni inn í íslenskt atvinnulíf og gefið von um það að aðstæður hér muni breytast svo að við náum að efla atvinnulíf landsmanna, sem er auðvitað grunnurinn að því að ná vopnum okkar. Það mátti líka heyra á hæstv. heilbrigðisráðherra fyrr í dag, þegar verið var að ræða um störf þingsins, að einkarekstur væri bisness og það væri bull og vitleysa. Bisness er eitthvað sem er eitur í hans beinum og þetta segir kannski allt, virðulegi forseti, um viðhorf hæstv. ríkisstjórnar og þeirra vinstri flokka sem hér fara með völd til atvinnulífsins og hvaða áherslur þeir vilja standa fyrir.

Við lesum líka að miklar áhyggjur eru úti um allt land vegna aðgerða og aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum. Tæpt hefur verið á málefnum sjávarútvegs þar sem ríkir orðið ákveðin upplausn og aðgerðaleysi vegna þeirra skilaboða sem ríkisstjórnin sendi frá sér. Þetta fylgir þessari svokölluðu fyrningarleið sem er auðvitað kolófær leið og það virðist vera að a.m.k. ákveðnir hæstv. ráðherrar séu farnir að gera sér grein fyrir því — sérstaklega hv. þingmenn Vinstri grænna — að þessi leið gengur einfaldlega ekki upp en hún er strax farin að hafa mikil áhrif. Verulega er farið að draga úr umsvifum allra fyrirtækja sem þjónusta sjávarútveg í landinu og farið er að bera á uppsögnum og því að menn þurfa hreinlega að stytta vinnuviku vegna þess að fyrirtæki sem starfa í þessari grunnatvinnugrein þjóðarinnar treysta sér ekki í fjárfestingar og endurnýjun og það sem til þarf til að halda starfsemi sinni gangandi. Óvissan er mikil sem sköpuð er, bæði með fyrningarleiðinni og þeirri strandveiðiheimild sem var komið á núna í síðustu viku þvert á allar gagnrýnisraddir hagsmunaaðila, sveitarstjórna og fólks um allt land. Þetta kemur verst við smærri byggðirnar sem hafa á undanförnum árum verið að braggast aftur í sjávarútvegi.

Það sama má nefna varðandi hvalveiðar. Þar hefur ríkisstjórninni tekist að búa til mikla óvissu og nýlegt frumvarp sem lagt hefur verið fram á Alþingi eykur enn á þá óvissu og ef það fer óbreytt í gegn sjá þeir sem þá atvinnustarfsemi stunda sér ekki annað fært en hætta þeirri starfsemi.

Við getum rætt um stóriðju og áhrif þessarar ríkisstjórnar á framtíðarmöguleika okkar þar. Í fréttum í gærkvöldi var sagt að á OECD-fundi hefði það komið fram að viðspyrna Íslands til að ná aftur vopnum sínum væri m.a. falin í stóriðju og kannski að stærstu leyti í aukinni stóriðju. Á sama tíma kemur hæstv. fjármálaráðherra ríkisstjórnarinnar, Steingrímur J. Sigfússon, í hádegisfréttir á Bylgjunni og segir að þetta sé bölvuð vitleysa, það þurfi ekki að horfa til frekari stóriðju. Þetta er gert á sama tíma og hæstv. iðnaðarráðherra segir ítrekað í þingsölum að á borði iðnaðarráðuneytisins hafi aldrei verið jafnmörg tækifæri í burðarliðnum, aldrei verið jafnmörg fyrirtæki sem hafa viljað skoða Ísland sem valkost, sem framtíðarstaðsetningu fyrir starfsemi sína. En hvaða svör er verið að gefa þessum fyrirtækjum? Hvaða svör fá þeir sem hafa áhuga á að koma með starfsemi sína til Íslands? Það er verið að gefa þeim þau svör að hér standi ekki til að fara í frekari virkjanaframkvæmdir, hér standi ekki til að nýta náttúruauðlindir landsins til að byggja upp öflugt íslenskt atvinnulíf. Þeir fá sem sagt engin svör. Og menn haga sér alltaf þannig í þessum vinstri flokkum að það er eins og þeir líti svo á að Ísland sé eitt í heiminum að þessu leyti. Það er auðvitað bullandi samkeppni á milli þjóða um að fá starfsemi erlendra fyrirtækja til sín til að skapa útflutningsverðmæti og störf í viðkomandi löndum. Það eru sorgleg dæmi þess á undanförnum mánuðum, má segja, þar sem við Íslendingar höfum misst slík tækifæri úr greipum okkar vegna stefnuleysis vinstri flokkanna og ráðaleysis, vegna þess að fyrirtækin fengu ekki skýr svör um það hvenær þau gætu mögulega hafið starfsemi hér. Þetta er fært í þann búning að hér sé verið að vinna að rammaáætlun um virkjanakosti. Í gangi er náttúruverndaráætlun frá 2009 til 2013 sem rýrir mjög möguleika t.d. sjálfsagðra og hagkvæmra virkjana í Þjórsá og svo getum við haldið áfram. Það tekur eiginlega steininn úr þegar hæstv. umhverfisráðherra kemur fram og skýrir frá því að það verði aðalmetnaður Íslands í viðræðum um loftslagsmál að draga til baka íslensk ákvæði, þá viðurkenningu sem fékkst í Kyoto á sérstöðu Íslands til raforkuframleiðslu og iðnaðarframleiðslu, þá sérstöðu sem þjóðir heims voru tilbúnar til að sýna Íslandi vegna þess hversu hagkvæmt það er að virkja hér og hversu náttúruvænt það er að stunda þá starfsemi hér. Nei, nú skal vera kaþólskari en páfinn sjálfur og fara til baka og afsala þessu, þó að þetta hafi engin áhrif ef þetta er skoðað á heimsvísu.

Það er alveg með ólíkindum, virðulegi forseti, að verða vitni að þessu og sérstaklega á þeim tímum þegar við þurfum á því að halda að við stjórn landsins sé ríkisstjórn sem er tilbúin til að berja kjark í fólk, tilbúin til að hvetja atvinnulífið, tilbúin til að opna dyrnar og auka starfsemi. Og nú er það nýjasta í niðurskurðartillögunum að það á að draga saman í vegagerð og samgöngubótum. Fyrstu tillögurnar eru auðvitað um að draga úr þeim á höfuðborgarsvæðinu. Á sama tíma og á að hefja viðræður um að hefja byggingu á Vaðlaheiðargöngum skal hætta við Álftanesveg og Arnarnesveg á höfuðborgarsvæðinu.

Hæstv. samgönguráðherra sagði einhvern tíma í ræðu á þinginu að hann væri samgönguráðherra alls landsins og að við sem búum á höfuðborgarsvæðinu þyrftum ekki að hafa áhyggjur af því að hann mundi mismuna okkur með nokkrum hætti. Hann þarf að fara að efna sín fyrirheit að þessu leyti.

Í vegagerð felast tækifæri til þess í bráð að gefa von inn í atvinnulífið en þá von á að taka burtu núna. Þetta mun hafa þær afleiðingar að fjölmörg verktakafyrirtæki munu leggja niður starfsemi sína með tilheyrandi afleiðingum fyrir íslenskt atvinnulíf. Í þessu felst mergur málsins, virðulegi forseti, munurinn á nálgun þessara vandamálum og hvernig við ætlum að vinna okkur út úr þessum vandamálum, þ.e. sá munur sem er á stefnu vinstri flokkanna sem hér eru við stjórn sem horfa bara á skattahækkanir, skattpíningar og gjaldahækkanir á fyrirtæki og heimili í landinu, og því sem við sjálfstæðismenn viljum gera, þ.e. að efla íslenskt atvinnulíf og gefa þau tækifæri sem þarf til þess að það geti náð vopnum sínum og skapa þau störf sem þarf að skapa og skila þeim skattgreiðslum sem þarf að skila og er eðlilegt að sé skilað. Nú síðast í dag, í skýrslu fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum, má lesa að áfram skal haldið á sömu braut. Það er engin von. Ekkert er rætt um að efla atvinnustarfsemi í landinu, efla þá skattstofna sem fyrir eru. Nei, enn skal haldið áfram á sömu braut. Áfengisgjald og tóbaksgjald skal hækkað um 30–40% á næstu mánuðum. Olíu- og bensíngjald skal hækkað á næstu mánuðum. Auðlindagjald upp á 7,5 milljarða skal lagt á atvinnuvegi landsins. Og það skal hækka virðisaukaskatt á matvælum. Þetta eru skilaboð eða hitt þó heldur til að vekja von með þessari þjóð og þeirri atvinnustarfsemi sem hér enn þrífst.

Það er þannig að grundvöllur viðreisnar okkar er aukin atvinnu- og verðmætasköpun í landinu og það verður að fara að horfa til þess í auknum mæli. Það er í raun skelfilegt, sérstaklega í ljósi þeirra upplýsinga og tillagna sem liggja fyrir, að horfa til þeirra niðurskurðarhugmynda sem eru ráðandi hjá þessum vinstri flokkum sem gjarnan kenna sig við jafnaðarmennsku. Þeir ætla að skera niður framlög til ellilífeyrisþega og öryrkja um 3,7 milljarða á ári. Þeir vildu helst gera það í gær. Þetta á að taka gildi á þeim greiðslum sem fólki berast núna 1. júlí, á miðvikudaginn í næstu viku. Þetta gerist á sama tíma og hæstv. forsætisráðherra kemur í fjölmiðla í gær og segir að með svokölluðum stöðugleikasáttmála aðila vinnumarkaðarins takist að verja heimilin í landinu og þau heimili sérstaklega sem eru með lágar og meðaltekjur. Skyldi hún hafa verið að hugsa til heimila öryrkja og eldri borgara þegar hún talaði? Hún virðist vera búin að gleyma uppruna sínum, sú ágæta kona, hæstv. forsætisráðherra. Þetta eru heimili sem hafa skuldbindingar eins og önnur heimili í landinu, virðulegi forseti. Þegar fyrir liggja tillögur okkar sjálfstæðismanna um annan grunn að nálgun þessara mála sem felst í því að ná skatttekjum með því að skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóði þannig að hægt verður að byggja ofan á þann grunn með allt öðrum hætti því þá þarf ekki að fara eins grimmt í viðkvæma málaflokka í niðurskurði og það þarf ekki að skera niður allar þær framkvæmdir eins og hér er gert, þá er það alveg ótrúlegt ábyrgðarleysi af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að þessi þáttur skuli ekki vera skoðaður betur.

Samkvæmt frumvarpinu sem við ræðum eru skattahækkanir á heimili 19,5 milljarðar, viðbótarskattahækkanir. Viðbótarskattahækkanir á atvinnulífið eru 19,5 milljarðar. Þetta eru 39 milljarðar á einu og hálfu ári. Þá er ég að taka það sem eftir er ársins 2009 og 2010. Við þetta bætast síðan skerðingar á elli- og örorkulífeyri upp á 5,5 milljarða og niðurskurður í vegaframkvæmdum upp á 11,8 milljarða. Samtals eru það 17,3 milljarðar. Þessar tölur á næsta eina og hálfa ári, virðulegi forseti, gera 56,3 milljarða á meðan tillögur okkar sjálfstæðismanna um að skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóði mundu á sama tíma færa okkur 60 milljarða og það mundi ekkert heimili, ekkert fyrirtæki og engin stofnun finna fyrir því og enginn öryrki og ekkert eldra fólk. Þetta er sá grunnur sem við leggjum til, virðulegi forseti, að sé lagt út af í þeim aðgerðum sem fram undan eru. En hæstv. ríkisstjórn kýs að kasta þessu út af borðinu án þess svo mikið að taka þetta til umræðu eða frekari skoðunar. Þetta eru ekki tillögur sem eru lagðar fram hugsunarlaust eða án þess að hafa verið ígrundaðar vel. Yfir þessum tillögum eru margir af okkar helstu sérfræðingum á þessu sviði búnir að liggja.

Virðulegi forseti. Samstöðuleysi ríkisstjórnarinnar í mikilvægustu málaflokkunum sem við höfum til umfjöllunar á þessu sumarþingi sem eru hvernig við ætlum að bregðast við viðreisn íslensks samfélags — við getum nefnt Icesave-samninginn, við getum nefnt Evrópusambandið, við getum nefnt atvinnumálin, stóriðjumálin, sjávarútvegsmálin — gerir það að verkum að þessi ríkisstjórn er ekki hæf til að sinna verkefnum sínum. Það er kominn tími til þess að þessi ríkisstjórn fari að endurskoða sinn hug. Það er kominn tími til þess að verkstjóri þessarar ríkisstjórnar, eins og þau kusu að kalla hæstv. forsætisráðherra á sínum tíma, hætti að berja hausnum við steininn og viðurkenni að verkefnið er þeim ofviða, viðurkenni að öll fögru fyrirheitin sem þeir gáfu í aðdraganda kosninga, öll þau kosningaloforð sem voru gefin, ganga ekki upp. Það sáum við sjálfstæðismenn fyrir, fórum inn í þessa kosningabaráttu í vor, viðurkenndum það sem miður hafði farið í okkar þætti en töluðum fyrir allt öðrum leiðum og miklu raunsærri og raunhæfari leiðum en þessi ríkisstjórn lofaði þessari þjóð. Skjaldborgin um heimilin hefur aldrei komið. Hún er ekki hrunin. Hún hefur aldrei komið og hún mun ekki koma með þeim aðferðum sem hér eru boðaðar, allra síst með þeirri skýrslu sem hæstv. fjármálaráðherra kynnti í dag um auknar skattahækkanir og aukna píningu á atvinnulífið og heimilin í þessu landi. Það má segja þetta hafi kristallast í ræðu hæstv. forsætisráðherra á 17. júní, ræðu sem maður hefði haldið að ætti að blása glæðum vonar í brjóst fólks, í samfélagið, íslenskt þjóðfélag. Í stað þess var þar um mikla armæðu að ræða og enga bjartsýni að finna, engar leiðir sem geta gefið heimilum og fyrirtækjum í þessu landi tilefni til að vænta þess að við séum að ná vopnum okkar fyrr en allt of seint í raun og veru.