137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[18:41]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður fór víða í sinni ræðu. Það var einkum tvennt sem ég hjó eftir og ég vil taka undir með hv. þingmanni þegar hann talar um að það sé mikilvægt að tala í von og gefa þjóðinni von og tala í krafti af því að við vitum það báðir tveir, ég og hv. þingmaður að íslenska þjóðin á margar auðlindir, bæði til sjávar og sveita. Þetta er ríkt land af auðlindum og séu þær nýttar skynsamlega er framtíðin björt.

Ég vil nefna í því samhengi, af því að hann fór víða og talaði um endurskoðun á sjávarútvegsstefnunni og fleira, að verið er að gefa von með strandveiðifrumvarpinu sem nýverið er búið að samþykkja í ríkisstjórn og veitt voru fyrstu leyfin á Reykjavíkurhöfn í gær. Það er ekki hægt að tala um að með því frumvarpi sé ekki verið að gefa mönnum von til að komast að fiska, komast og róa. Það er langt í frá að þessi ríkisstjórn sé ekki að gefa mönnum von.

Hv. þm. Jón Gunnarsson nefndi tillögur sjálfstæðismanna um skattlagningu á inngreiðslur í lífeyrissjóði og hann fór með rangt mál þegar hann sagði að þetta hefði ekki verið skoðað því að þetta var vissulega skoðað og þetta var rætt meðal annars við lífeyrissjóði. Þetta var rætt við gerð stöðugleikasáttmála og ég vil bara ítreka að það að ná stöðugleikasáttmála eins og náð var er gríðarlega mikið atriði í endurreisnarstarfinu. Þetta var algerlega slegið út af borðinu af hálfu þeirra sem voru í þessum stöðugleikaviðræðum auk þess sem lífeyrissjóðirnir eru ekki ánægðir með þetta. Við skulum ekki gleyma því að viðræður eru í gangi við lífeyrissjóðina um að koma að verkefnum, koma að framkvæmdaverkefnum, vegagerð, byggingum þannig að það er aldeilis mikið atriði að hafa þessa aðila góða. Hv. þingmaður kallar þetta tillögu sem slegin var út af borðinu. Ég vísa því alfarið á bug. En það er mikilvægt að þetta sé skoðað ekki bara vegna Sjálfstæðisflokksins heldur í sátt og samlyndi við (Forseti hringir.) þá sem að stöðugleikasáttmálanum koma og í sátt við lífeyrissjóðina.