137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[18:43]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ísland er ríkt að auðlindum. Við verðum að nýta þær til að Ísland verði ríkt af þessum auðlindum. Það er algjört grundvallaratriði. Við verðum að nýta þær og við verðum að gera það af skynsemi og við verðum að vera opin fyrir öllum þeim möguleikum sem þar finnast en ekki stöðugt í því að leggja einhverja þröskulda og aukna erfiðleika fyrir þá sem vilja nýta þessar auðlindir okkar. En það hefur verið eins og markmið þessarar vinstri stjórnar að gera það og þau eru fjölmörg dæmin um það eins og ég fór yfir áðan.

Að verið sé að gefa von með strandveiðifrumvarpinu er alveg rétt. Það er alveg rétt, virðulegi forseti. Það var verið að gefa ákveðnum aðilum von þar. En það var bara verið að taka von frá miklu fleiri. Það var verið að taka lífsviðurværi frá fleirum og við fengum í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þingsins fulltrúa utan af landsbyggðinni frá smáum sjávarbyggðum hringinn í kringum landið sem sögðu okkur að með þessu kerfi yrði grundvelli fiskvinnslu kippt undan mönnum á þessu stöðum, þeir mundu þurfa að loka. Svo á við um marga smábátasjómenn enda var það engin tilviljun að við þetta strandveiðifrumvarp var mikil og breið andstaða nema hjá þeim sem sjá þarna tækifæri — og það sérstaklega þeim sem hafa verið í greininni, voru búnir að selja sig út úr henni — sjá þarna tækifæri til að komast inn í hana aftur, eins og rakið var hérna áðan, og vilja síðan selja sig út aftur.

Þetta með lífeyrissjóðina. Lífeyrissjóðirnir eru ekki ánægðir með að við skattleggjum greiðslurnar áður en þær fara inn til þeirra. Hvers vegna í ósköpunum ættu þeir að vera ánægðir með það? Vegna þess að það minnkar náttúrlega umráðafé þeirra. En snerist þessi stöðugleikasáttmáli um að gera alla ánægða eða snerist hann um ábyrgð? Ef aðilar atvinnulífsins hafa verið á móti þessu og vilja ekki skoða þetta nánar þá þarf þessi ríkisstjórn auðvitað að hafa (Forseti hringir.) bein til að standa í lappirnar.