137. löggjafarþing — 26. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[19:43]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og skattn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir ágætisyfirlit. Eitt sem kom fram í máli hv. þingmanns er einhver grundvallarmisskilningur sem virðist vera svolítið gegnumgangandi, bæði í þjóðmálaumræðunni og stundum inni á Alþingi líka og það er hversu dýr störf eru.

Nú er það þannig að við höfum þessar orkulindir og ég býst við að við séum flest sammála um að þær viljum við nota til að skapa framtíðargjaldeyristekjur fyrir þjóðina. Við erum ekki sammála um hvernig á að nota þá orku. Fram hafa komið hugmyndir um kísilflöguverksmiðjur, gagnaver, jafnvel gróðurhús og síðan náttúrlega álverin. Þá tala menn um hversu mikið hvert starf kostar. Ef við erum sammála um að við eigum að nýta orkuauðlindirnar þá kostar hvert starf við raforkuver jafnmikið, sama í hvað það er notað en aftur á móti er misjafnt hversu mikið fjármagn er á bak við stóriðjuverin.

Nú er það svo að þetta er allt saman erlend fjárfesting og hún kemur okkur ekki við að því leytinu til hversu miklu útlendingar vilja eyða í hvert starf. Það eru ekki peningar sem við notum í eitthvað annað þannig að það er grundvallarmisskilningur og ekki raunveruleg rök á móti þessu.