137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB-aðild.

[15:03]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu. Í þeirri þingsályktunartillögu er þess getið að jafnframt verði lögð fram tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu, frumvarp um það hvernig þjóðaratkvæðagreiðslur eigi að fara fram á Íslandi. Einstakir ráðherrar hafa mikla fyrirvara við inngöngu Íslands í Evrópusambandið eða eru jafnvel mótfallnir. T.d. segir hæstv. heilbrigðisráðherra að hann geti fyrir sitt leyti fallist á það að við sækjum um aðild enda verði það þjóðin sem á endanum hafi síðasta orðið í málinu.

Nú ber svo við að hæstv. forsætisráðherra hefur sagt okkur að það standi ekki til að þjóðin eigi síðasta orðið í málinu, heldur fari einungis fram ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla áður en þingið taki málið til meðferðar að afloknu samningaferlinu, þ.e. þegar við höfum náð samkomulagi við Evrópusambandið fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla sem verði ráðgefandi fyrir þingið. En við vitum öll að þegar stjórnarskránni hefur verið breytt og nýtt þing komið saman sækja þeir þingmenn sem starfa á því nýja þingi umboð sitt ekki til þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu sem þá mun hafa farið fram, nei, þeir sækja umboð sitt til þeirra kosninga sem þá verða nýafstaðnar. Sá málstaður sem þeir standa fyrir fyrir þær kosningar ræður atkvæði þeirra á hinu nýja þingi.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Telur hann fullnægjandi að þjóðin hafi einungis aðkomu að Evrópusambandsaðildinni með því að gefa ráðgefandi álit á því máli eða gerir hann fyrir sína hönd kröfu um að þjóðin eigi síðasta orðið eftir að stjórnarskrá hefur verið breytt og Alþingi eftir atvikum staðfest samninginn þannig að hann öðlist ekki gildi og verði ekki bindandi fyrir hönd þjóðarinnar fyrr en þjóðin (Forseti hringir.) hafi haft eitthvað um hann að segja?